Oct 26, 2013

Föstudags.






Ég eyddi gærkvöldinu í ljómandi fínt pizzuát með systkinum mínum og mági. Ef það er eitthvað sem við systkinin eigum sameiginlegt þá er það hversu ánægjulegt okkur finnst að fóðra okkur. Og það vel. Ég yfirgaf einmitt boðið þegar til stóð að skella sér í ísferð - ég er elst, ég brenni talsvert hægar en þau og ákvað að vera skynsöm í þetta skiptið.


Ég held nú örlítið upp á þessa tvo. Bara örlítið. 


Þetta ágæta föstudagskvöld tók ég síðan að mér kattarpössun. Já ég! Án gríns. Ég sagði eigandanum að sjálfsögðu ekki frá því þegar ég varð ketti að bana í barnæsku. En það var líka óvart, kattardráp af gáleysi.

Ég var ekki sú eina sem kom að þessu slysi en tel best að viðhalda nafnleynd þeirra samseku. Við vorum fjórar stelpur. Litlar stelpur sem langaði bara agalega til þess að eiga kött. Þannig að við lögðum á ráðin um að stela eins og einu stykki. Við fórum út í bæ, fundum kött og drösluðum honum með heim.

Engin okkar þorði auðvitað að fela hann heima hjá sér þannig að við brugðum á það ráð að koma honum fyrir í búri. Og búrið settum við á tjaldstæðið á Eskifirði. Þetta var líklega í janúar eða febrúar. Það voru ekki beint ákjósanlegar veðuraðstæður til þess að dvelja í búri. 

Til að gera langa sögu stutta fannst fórnalamb okkar dáið morguninn eftir. Hann hafði auðvitað frosið í hel vesalings skinnið. Hrikalegt alveg hreint. Og að sjálfsögðu ekkert nema gáleysi. 



Kötturinn sem ég passaði í nótt er hinsvegar ennþá á lífi. Ég kom að henni í villtum ástarleik með tuskudýri fyrir klukkan sjö í morgun. Það var rétt eftir að hún vakti mig með því að setjast á hausinn á mér og sleikja á mér eyrað. Mér dauðbrá auðvitað þannig að ég stökk öskrandi á fætur. Kisi fauk á gólfið - gjörsamlega dauðskelkaður.

En hún er lifandi. Ennþá. Það er fyrir mestu.

Heyrumst.

1 comment: