Apr 10, 2015

Verslunarferð í F&F

Ég hef verið dálítið skotin í versluninni F&F síðan ég rambaði þangað inn á fimbulköldu vetrarkvöldi rétt fyrir jólin. Og kom út með gula kápu. Ó, gula kápan mín. Ég er talsvert ánægðari með hana en bölvuðu gulu sófadrusluna mína. En það er önnur saga.


Þegar ég sat svo uppi með fatalaust og sístækkandi afkvæmi núna í janúar, rambaði ég aftur inn í þessa ljómandi fínu verslun. Og viti menn - ódýrstu barnaföt á Íslandi. Ég get svo svarið það. Samkvæmt mínum mjög svo óformlegu rannsóknarstörfum.

Ég nenni ekki dýrum barnafötum. Það er til margt fallegt og fáránlega dýrt. En fingurnir á afkvæminu virðast framleiða fitu. Og 90% af því sem hann borðar endar í hálsmálinu hjá honum. Sem hann á ekki langt að sækja. Ég skipti um föt að minnsta kosti tvisvar á dag. Það er enn önnur saga.

Ég viðurkenni að ég var skeptísk á gæðin. Ég skal viðurkenna það fúslega. Enda er ég ekki vön að labba út með gallabuxur, þrjár boli og hettupeysu fyrir minna en 10 fjólubláa. En það átti sér stað í janúar. Núna er apríl. Fötin eru þvegin oft í viku og eru ennþá í stórfínu standi. 

En barnið stækkar. Stækkar, stækkar og stækkar. Og veskið mitt minnkar í ákveðnu samræmi við það. Ég grenja þó dálítið minna ofan í buddugarminn eftir að F&F kom til skjalanna.

Við smelltum okkur einmitt í nýju búðina í Litlatúni í Garðabæ í vikunni. Af því að þegar ég sótti barnið í skólann fyrr um daginn var hann með bumbuna út undan bolnum. Já, nóg um það. Feikinóg.



Langermabolir á 1570 krónur. Afkvæmið á þó nokkra svona. Þeir minnka ekki í þvotti, slegið og staðfest.


Hettupeysur á tæplega 3000 krónur. 


Þessi var ekki lengi að kasta af sér úlpunni og henda sér í hettupeysu. Og næla sér í geðveikan hatt. Eins og hann orðar það.


Hræódýrir stuttermabolir. Nokkuð margir til á þessu heimili. 


Uppáhalds verslunarfélagar mínir. Nei, nú lýg ég. Alveg blákalt. Þeir tuða þangað til ég reyni að bora úr mér augun og troða þeim inn í eyrun á mér.


Fóru þessir með heim? Kemur í ljós, kemur í ljós.


Oh, þessir grátbáðu mig um að taka að minnsta kosti eitt stykki með heim. En nei. No can do. Ég er með haus á stærð við loftbelg. Stóran loftbelg. Ég þurfti einmitt stærstu fáanlegu stúdentahúfuna á sínum tíma. Sko stærstu stærðina í karlastærð. Jájá. 


Stórglæsileg búð í Litlatúni. Inni í Hagkaup nánar tiltekið. Það gleður svo landsbyggðarhjarta mitt ákaflega að F&F opnar á Akureyri á morgun. 

Mín tillaga er svo að sjálfsögðu að Egilsstaðir verði næst fyrir valinu - það er óþolandi lítið úrval af barnafötum á Austurlandi. 

Heyrumst.

1 comment:

  1. ó hvað ég vona að blómaskórnir hafi ratað heim til þín!

    ReplyDelete