Jæja. Við ræddum síðast um brúðkaupsundirbúning í september. Einhverjum tveimur dögum eftir að við sambýlingarnir höfðum slegið því föstu að ganga í heilagt hjónaband. Og ég var byrjuð að æfa gönguna að altarinu á stofugólfinu. Búin að kaupa props fyrir myndatökur. Bóka ljósmyndara. Baka eina prufuköku. Og bresta fimm sinnum í grát yfir því að finna ekki nægilega skemmtilegt hashtag fyrir herlegheitin. Já, fyrir brúðkaup sem átti að eiga sér stað 10 mánuðum seinna.
Allt í lagi. Ég játa. Ég fór heldur geyst af stað. Það má sakfella mig fyrir það.
Ég er auðvitað alltaf svolítið eins og spíttbátur. Eða þið vitið, hálf bensínlaus spíttbátur. Ég svíf yfirleitt seglum þöndum í miklu offorsi þegar eitthvað vekur hjá mér áhuga. Þó að spíttbátar séu almennt ekki með segl. Eða gangi fyrir bensíni. Whatever.
Svo verð ég bensínlaus. Í flestum tilfellum þegar ég sé ennþá til bryggju. Missi áhugann. Verð afhuga.
Einhverjum kann að ráma í þegar ég ætlaði að mála allan heiminn. Eða lita réttara sagt. Keypti litabækur eins og óð og uppvæg kona. Ritfangaverslanir urðu skyndilega eins og Vero Moda. Nýir litir voru mitt LSD. Ó, magnið sem ég keypti. Neyslan sem ég var í.
Ég var farin að laumast í hraðbanka. Til þess að fjármagna litabækur og liti. Eðlilega. Ekki skyldi nú sambýlismaðurinn komast á snoðir um að ég væri að eyða tugum þúsunda í enn eitt áhugamálið. Enn eitt mjög svo skammvinnt áhugamálið. Einmitt.
Neih, sá hefði stútað mér. Bara með byssu sko. Ekki barsmíðum. Hann er blessunarlega laus við að vera ofbeldishneigður. Þessi elska.
Í dag. Í dag já. Tilhugsunin um að setjast niður og fitla við litskrúðug fiðrildi er ansi hreint fjarri mér. Ég veit ekki einu sinni hvar þessar fokdýru litabækur eru. Ehm, litirnir. Allir bölvuðu litirnir. Það má mögulega skrapa þeim saman upp úr einhverjum dótakassanum hjá afkvæminu.
Já, þannig fór um sjóferð þá.
Og sömu leið fór sjóferðin sem ég lagði upp í þarna í september. Í átt að himneskri hjónavígslu. Og ríkmannlegum veisluhöldum.
Æh. Bensínið kláraðist. Öskrandi áhuginn dvínaði. Minnisbókum, myndatökupropsi og kökuuppskriftum var fleygt út í horn.
Hefði ég leyft mígandi maníunni að blómstra í fullum skrúða allan þennan tíma væri ég vafalaust brúðgumalaus í dag. Munaðarlaus. Vinalaus. Og allslaus. Þannig að tímabundið áhugaleysi fyrir eigin brúðkaupi var vísast fyrir bestu.
Núna er friðurinn andskotans úti. Ég er fokking full af bensíni (og allskonar safa kæru Snapchat-fylgjendur). Til í tuskið. Klár í slaginn. Og mun ekki linna látunum fyrr en 14.ágúst næstkomandi.
Ah já. Dagsetningu hjónavígslunnar himnesku hefur formlega verið breytt. Úr 9.júlí í 13.ágúst. Það hefur eitthvað með sjómennsku að gera. Eitthvað í sambandi við slipp. Eitthvað skiptikerfi um borð. Blablabla. Hver var að hlusta? Ekki ég.
Fyrsti dagur í fluggír. Ég að kasta fram bröndurum til þess að hafa á boðskortinu. Sambýlismaðurinn að fara að grenja. Og óska þess að vera ofbeldishneigður.
Þess má geta að við höfum afar ólíkar hugmyndir um bæði brúðkaup og veisluhöld. Hann vill gráta yfir inngöngu minni á meðan brúðarmarsinn dunar og tárvotir kirkjugestir rísa á fætur. Ég vil dansa að altarinu. Helst á meðan Gin and Juice með Snoop Dog glymur í græjum Eskifjarðarkirkju.
Eins neitar hann að klæðast gulum Converse-skóm á stóra daginn. Það mál er ekki útkljáð. Frekar en svo mörg önnur.
Rétt í þessu var hann að hrista hausinn alveg heiftarlega. Ég var nefnilega að panta talsvert magn af gulum makkarónum. Kannski nokkur hundruð. Það er nota bene það eina sem komið er á veisluborðið.
Nei. Samkomulag um hvað við eigum að hafa í matinn er svo langt frá því að vera í höfn. Hann vill helst þriggja rétta veislumáltíð. Með fínu víni. Dreypa svo á dýru koníaki og hakka í sig handgert súkkulaði. Og sennilega fá biskup Íslands til þess að fara með borðbæn.
Ég vil ódýrt rauðvín. Og meira rauðvín. Fullt af rauðvíni. Og nammi.
Stórkostlegir mánuðir framundan.
Þið fáið að sjálfsögðu að vera með.
Þið finnið mig á bæði Snapchat & Instagram - gveiga85.
Heyrumst.