Jul 25, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Ég sá þennan yndislega gamla mann þegar ég gekk eftir ströndinni í Los Cristianos í vikunni. Hann var eitthvað svo fallegur og friðsæll að lesa bók með litlu stækkunargleri. Sambýlismaðurinn bannaði mér að fara og faðma hann. Bannsettur.


Það var hamingjusöm kona sem skreið undir sæng í Keflavík gærkvöldi. Að sofa með sæng er dásamlegur lúxus sem ég hef saknað síðustu tvær vikur. (Það var nota bene mjög erfitt fyrir mig að skrifa hamingjusöm kona - almáttugur. Hamingjusöm stelpa hljómaði bara ekki alveg rétt. Ég fer örugglega alveg að verða gráhærð. Ég er komin með fimm hrukkur. Fimm! Ég slepp samt við sigin brjóst hugsa ég, enda með flatari bringu en sambýlismaðurinn).


Ekki gat ég farið að sofa í gærkvöldi án þess að næra mig. Ein spikfeit Dominospizza sem ég snæddi uppi í rúmi. Lekker með eindæmum, ég veit. Ég sveif svo inn í draumaheiminn á þykku kolvetnisskýi. Mmm.


Ó, ég hlakka svo til að vakna í mínu eigin rúmi á laugardaginn og borða undursamlegan hafragraut. Með góðri slummu af hnetusmjöri, að sjálfsögðu. Get ekki beðið.


Ég kíkti aðeins við á Glerártorgi í dag. Bara aðeins. Einungis fyrir afkvæmið sem var búið að röfla um einhverja hoppukastalaferð síðan hann vissi að leiðin lá til Akureyrar. Ég þóttist þurfa á salernið í snatri og sendi sambýlismanninn þess vegna í þetta margrómaða hoppukastalaland.

Þessari meintu salernisferð eyddi ég í Tiger. Þar fann ég þessi fínu tækifæriskort - tvö stykki fyrir 200 kall. Það er gjafaverð fyrir svona skemmtileg kort. Ég mæli með að þið kíkið á kortaúrvalið í Tiger. 

Svona kort myndu nú líka taka sig prýðilega vel út í ramma uppi á vegg.

Í augnablikinu er ég stödd á Akureyri og er að reyna að fá sambýlismanninn með mér í Jólahúsið á morgun. Nei, ég er ekki í jólaskapi í júlí - það fæst bara svo helvíti gott nammi þar sem ég þarf endilega að koma höndum yfir áður en ég fer í megrun á mánudag.

No comments:

Post a Comment