Ó, maður lifandi - þetta var einn gómsætur brauðhleifur. Já, bakaður í dag og löngu búinn núna. Étinn upp til agna. Þetta brauð smakkast eins og einkennilega sæt ostakaka með bananabragði. Smyrjið það með hnetusmjöri og lífið fær nýjan lit.
Bananabrauð með rjómaostafyllingu:
1 egg
1/2 bolli púðursykur
1/4 bolli ólívuolía
1/4 bolli sýrður rjómi
2 teskeiðar vanilludropar
2 stórir bananar
1 bolli hveiti
1/2 teskeið lyftiduft
1/2 teskeið matarsódi
örlítið salt
Fylling:
1 egg
110 grömm rjómaostur
1/4 bolli sykur
3 matskeiðar hveiti
Hrærið saman eggi, púðursykri, olíu, sýrðum rjóma og vanilludropum.
Smellið tveim stöppuðum banönum saman við.
Síðan fer hveitið, matarsódinn, lyftiduftið og saltið í skálina. Hrærið gætilega saman.
Útbúið rjómaostablönduna.
Setjið sirka 2/3 af deiginu í form.
Rjómaostablöndunni er smurt varlega ofan á. Afgangurinn af deiginu fer að lokum þar yfir.
Inn í ofn í 50-60 mínútur á 175°. Það þarf að fylgjast dálítið vel með brauðinu. Ég var heldur æst (þá sjaldan) og kippti mínu út örlítið of snemma. Það kom ekkert niður á bragðinu - en útlitið hefði mátt vera betra.
Já. Ég á sóðalegasta eldhús í heimi. Mér finnst bara alltof mikil fyrirhöfn að ná í hluti inn í skáp í sífellu - þurfa svo að ganga frá þeim aftur. Nei andskotinn, þá kýs ég frekar að hafa bara allt á borðinu. Alltaf.
Virkilega gott.
Heyrumst.
Blogg.... Sjónvarpsþáttur... er ekki næsta mál á dagskrá uppskriftabók með þessu áframhaldi ?? ;)) ;)
ReplyDeleteJá og þetta er ekki sóðalegt eldhús; allavega ekki bekkurinn; þetta er bara últra heimilslegt; svona eru bekkirnir hjá mér; þoli ekki að þurfa að snuðra í helv. skápunum eftir einhverju alltaf; kýs frekar að hafa það í skúffunum eða uppá bekk..... þarf þá ekki að leita endalaust af hlutunum ;)
DeleteHahaha, þetta lítur alveg hræðilega út. En get alveg ímyndað mér að það bragðist vel ;)
ReplyDeleteTakk fyrir fyndið og skemmtilegt blogg!