Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég brást ykkur í gær. Gærdagurinn var bara ákaflega þéttpakkaður - já, það var miðnæturopnun í Smáralind. Ég get ekkert verið allsstaðar. Bæði þar og fyrir framan tölvuna. Nei. Ekki læt ég miðnæturopnun framhjá mér fara - það var afsláttur allsstaðar. Ég þarf bara að heyra orðið
afsláttur og allt fer í fokk. Lærdómur, blogg, almenn skynsemi - allt víkur fyrir afsláttaástinni. Þið þekkið þetta. Vona ég.
Snúum okkar að fimm hlutum þennan ágæta fimmtudag.
Ég les mikið af bloggum, bæði íslenskum og útlenskum. Stundum rek ég augun í færslur sem bera nöfn eins og ,,Hvað er í töskunni minni?" Yfirleitt fylgir svo mynd af dásamlega fallega uppröðuðum snyrtivörum, munnþurkkum og jafnvel merkjaveski. Ég neita að trúa þessu. Það gengur enginn um með svona fínt innihald í töskunni sinni. Ef svo er þá er ég róni. Róni!
Ég hellti úr minni tösku á borðið hérna í morgunsárið. Þarna má sjá verulega tæpan banana, tóman snakkpoka, plástur, heftara (neh, ég veit ekki), tannþráð, verkjatöflur útklíndar í varalit, þrjár bingókúlur sem voru bara á stjákli um töskuna, fjórir varasalvar, einn eyrnalokkur, sælgætisbréf og fleira misfallegt.
Ég læt ekki snjóstorm stöðva mig þegar kemur að því að klæðast kjólum. Ég tók þetta meira að segja alla leið og fór í blómakjól.
Eruð þið að súpa hveljur yfir speglamyndinni? Við vorum búin að ræða þetta. Höfum á bak við eyrað að ég bý ein og ef ég tæki ekki speglamyndir þá sæjuð þið mig aldrei!
Þetta er svo tælingarblikkið mitt sem ég hef verið að beita á háskólasvæðinu undanfarna viku. Kona má nú vonast eftir salernisboði. Andskotinn.
Nei. Þetta hefur ekki borið árangur.
Talandi um miðnæturopnun í Smáralind. Það var allt á afslætti sko. Allt já. Þar á meðal uppáhalds lyktin mín úr The Body Shop. Ekki get ég lyktað illa. Þessi lykt er líka svo góð - ef þið rekist á mig einhversstaðar þá megið þið pikka í mig og ég skal leyfa ykkur að þefa af mér.
Ég fæ svona matarmaníur. Ef ég finn eitthvað gott þá borða ég endalaust af því og get ekki hætt að hugsa um það. Í augnablikinu spilar abt-mjólk með vanillubragði þetta hlutverk í mínu lífi. Ég fæ ekki nóg.
Þessi mynd er tekin uppi í rúmi klukkan tvö í nótt. Ég gat ekki sofið. Ekki vegna þess að ég var svöng, nei. Mig langaði svo í eina svona dós að ég gat ekki fest svefn. Ég gat ekki hugsað um neitt annað en ljúfa vanillubragðið og brakið í múslíinu. Mmm.
Jæja, föstudagurinn bíður mín.
Eigið hann ljúfan!
Heyrumst fljótlega.