Eigið góða helgi!
Jun 29, 2013
Jun 27, 2013
Fimm hlutir á fimmtudegi.
Unaðslegur eftirréttur sem ég galdraði fram úr erminni um daginn. Já, svona er ég myndarleg. Mögulega er ég líka sísvöng feitabolla en það er önnur saga. Fullt af kókosbollum, rjóma, makkarónukökum, karmellufylltu pippsúkkulaði og ávöxtum. Guðdómlega gott!
Dásamlega mjúk kósýpeysa sem ég keypti í Köben um daginn. Hlébarðamynstruð að sjálfsögðu.
Ég hyggst fylla heimili mitt af innblæstri. Þess vegna bý ég til allskyns veggspjöld eins og óð kona.
Myntan vex og vex í eldhúsglugganum mínum. Hugsanlega eru þetta skilaboð frá æðri máttarvöldum að ég þurfi að herða mig í Mojitodrykkjunni. Ekki má þetta fara til spillis.
Ég keypti þessa ljómandi fínu fánalengju í Húsasmiðjunni í dag. Hún kostaði heilar 200 krónur og tekur sig afskaplega vel út á ruslahaugunum hjá afkvæminu.
Jæja, ég þarf að hefjast handa við niðurpökkun fyrir stórgóða helgi á Seyðisfirði.
Heyrumst!
Labels:
afkvæmið,
fimm hlutir,
heimilis,
hugmyndir,
innblástur,
köben,
leopard,
matur,
namm,
shopping
Jun 26, 2013
Hlébarðamynstur.
Ég er og hef alltaf verið sjúk í hlébarðamynstur.
Ég skil þennan sjúkleika samt ekki alveg. Hvaðan kemur hann? Það er ekkert mjög langt síðan að ég reyndi að sannfæra sambýlismanninn um að veggfóðra einn vegg hérna heima með hlébarðamynstruðu veggfóðri. Hann hélt nú ekki.
Ég hef örugglega verið einhverskonar gleðikona í fyrra lífi. Það er á hreinu.
Newspaper Nails.
Þetta er dálítið öðruvísi og skemmtileg tilbreyting.
Til þess að framkvæma svokallaðar dagblaðsneglur þarf að lakka tvær umferðir af hvítu eða kremuðu naglalakki. Það þarf svo að leyfa því að þorna alveg.
Neglurnar eru síðan lagðar í alkahólbleyti í sirka 4-5 mínútur. Ég hellti mér nú bara vænni slummu af vodka í glas og skellti puttunum þar ofan í. Sambýlismaðurinn, ó sambýlismaðurinn - hann átti auðvitað ekki til orð þegar hann fylgdist með þessum gjörðum.
Þegar neglurnar eru orðnar vel vodkablautar er litlum bút af dagblaði klesst á þær og það svo fjarlægt rólega.
Það má auðvitað leika sér með allskonar hugmyndir og pappír. Ég er að hugsa um að prófa einhvern fallegan gjafapappír næst.
Tjah, ef sambýlismaðurinn tekur ekki upp á því að fela vodkann fyrir mér.
Jun 25, 2013
Ristað regnbogabrauð.
Það þarf ekki alltaf mikið til þess að gleðja litla kroppa. Í þessu tilfelli dugðu fáeinar skálar af vatni með örlitlum dropa af matarlit út í, brauðsneiðar og hreinn pensill.
Þessum fannst nú ekki leiðinlegt að sitja ber að ofan og stússast við að mála morgunmatinn sinn.
Þegar málarinn hefur lokið sér af er brauðinu smellt í brauðrist.
Í þessum skrifuðu orðum situr ákaflega hamingjusamur listamaður fyrir framan mig að snæða ristað regnbogabrauð með sultu. Alveg yndislegur.
Jun 24, 2013
Svipmyndir úr afmæli.
Við eyddum rúmlega 10 tímum í veitingabras á laugardaginn. Það er bara of mikið af eldhúshangsi fyrir mína parta. Ég mun ekki sinna eldamennsku aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót.
Gleðin var svo sannarlega við völd enda eigum við stórskemmtilega vini og fjölskyldu.
Flip Cup var spilað af mikilli innlifun - að minnsta kosti hjá mér eins og myndirnar gefa til kynna. Á neðstu myndinni má einmitt sjá mig stíga sigurdans eftir að mitt lið sigraði þriðja leikinn í röð.
Til þess að ljúka þessu afmælisbloggi verð ég að láta bút úr einu ljóði fylgja með. Þetta ljóð prýddi einn pakkann sem sambýlismaðurinn fékk þetta kvöld:
Í Launafli hann starfar alla daga og eitthvað er víst sífellt þar að laga
og heima þarf í kringum sína að skúra því hún er svo upptekin að kúra.
Hún kúrir yfir lærdómsbókum sínum og kíkir eftir naglalökkum fínum
sambýlismaður í kringum hana hoppar, meðan fínerí á vefnum hún sjoppar.
En stundum hún sjoppar samt, nota bene langa og góða ferð til Tene
og þá má sambýlismaðurinn koma með og leika við þeirra krakkapeð.
Dásamlegt partý og ég er orðin æsispennt fyrir afmælishöldum þegar ég verð þrítug. En það er nú ekki fyrr en eftir allavega fimm ár. Samkvæmt minni talningu að minnsta kosti.
Labels:
drykkir,
gjafir,
hamingja,
laugardags,
matur,
namm,
persónulegt,
sambýlismaðurinn,
sumar
Jun 22, 2013
Afmælis.
Ég hef mikinn metnað fyrir áfengum veitingum. Þessar appelsínur eru ætlaðar undir hlaupskot sem hægt verður að skera í báta. Segi ykkur meira frá þessum framkvæmdum síðar.
Eldhúsið er ekki minn uppáhalds staður. Ég og sambýlismaðurinn gerðum því örlítinn samning. Ég röfla ekkert á meðan ég hjálpa honum við að gera veitingar. Í staðinn afsalar hann sér öllum rétti til þess að röfla yfir kaupsýki minni það sem eftir er af árinu.
Það eru góðir sex mánuðir framundan.
Jun 20, 2013
Fimm hlutir á fimmtudegi.
Það hafa farið fram strangar snittuæfingar hérna á heimilinu undanfarið. Sambýlismaðurinn heldur nefnilega upp á þrítugsafmælið sitt um helgina. Ég er ekkert sérlega hrifin af snittusmökkun. Ég vil miklu frekar að við veltum fyrir okkur áfengum veitingum og smökkum þær vel og vandlega.
Mamma mín er dásamlegur snillingur sem þekkir mig líklega betur en nokkur annar. Hún kom heim frá Spáni í gær með þennan guðdómlega gjafapoka í farteskinu. Það sem einn poki getur hitt í mark - maður lifandi. Ég hef jú verið með dálítið sjúklega áráttu fyrir Marilyn Monroe frá því í barnæsku.
Í pokanum leyndist að sjálfsögðu ýmislegt gúmmelaði. Þar á meðal þessir naglapennar til þess að teikna eitthvað brjálæðislega fallegt á neglurnar.
Ó og þessi naglalökk. Til þess að búa til svokallaðar kavíarneglur. Já ég sagði kavíar.
Ótrúlega fallegt og skemmtilegt.
Það er ekki bara mamma sem sér um sína heldur hefur Ebay glatt mig mikið og vel í þessari viku. Ég missti vitið í prófalestri um daginn og pantaði hvert eyrnalokkaparið á fætur öðru. Þau eru loksins að skila sér inn um lúguna og hvílík hamingja.
Jæja, mín bíður áframhaldandi naglalakksföndur. Og auðvitað hin hefðbundna rauðvínsdrykkja sem tilheyrir fimmtudagskvöldum. Eigið gott kvöld mín kæru.
Above Knuckle Ring.
Þetta finnst mér agalega smart hringir. Ég var að enda við að panta mér þessa á neðstu myndinni - fimm í pakka á heila tvo dollara. Þið vitið væntanlega hvaðan? Jú Ebay var það heillin. Að sjálfsögðu.
Það dugar að skrifa bara Above Knuckle Ring í leitina og þá spretta þessir ljómandi fallegu hringir upp í ýmsum útgáfum. Ég held að Velvet hafi verið með einhverja svona hringi ef þið treystið ykkur ekki í brask á Ebay.
Subscribe to:
Posts (Atom)