Nov 10, 2012

Konukvöld Blómavals.

Ég fór á konukvöld Blómavals á síðasta fimmtudag. Voða fínt allt saman og ætlaði ég að vera rosalega dugleg að taka myndir en það fór nú forgörðum því það var allt gjörsamlega stappað af konum þarna sem voru hver annarri æstari að næla sér í eitthvað góss á 25% afslætti. Ég kom heim með áverka á fótum því það var búið að troða svo oft á tánum á mér eða keyra yfir þær með innkaupakerru.


Ég labbaði svo 17 sinnum framhjá þessum kertastjökum á meðan ég reyndi að réttlæta fyrir mér kaup á þeim. Hrikalega flottir - en ég var nýbúin að rífa upp sendingu frá Ikea þannig að sjálfstjórnin var í sögulegu hámarki. Ég efast þó ekkert um að þeir verða mínir áður en jólin ganga í garð. Ég hef ekki svo mikla sjálfstjórn að ég gleymi þeim bara. 


Það voru allskonar básar út um allt þar sem fólk og fyrirtæki voru að kynna vörurnar sínar. Á myndinni er brot af ótrúlega flottum vörum frá fyrirtæki sem heitir Smekklegt. Sú sem saumar og hannar heitir Edda og þið getið skoðað þetta betur hér. Slefsmekkirnir frá henni eru hrikalega töff - ég hefði keypt þá alla ef ég ætti einhvern sem slefaði. 


Ég fékk smá hland fyrir hjartað þegar ég sá þessa tösku. Sem betur fer var enginn staddur við básinn þannig ég gat ekki spurt nánar út í hana - eins gott, annars eru töluverðar líkur á að við hefðum farið heim saman þetta kvöld. En hönnuðirnir heita held ég Erla og Ásdís og voru með troðfullt borð af sjúklega flottum vörum.


Ég heimsótti þessa aðeins. Kaffivél sem ég er búin að vera með á heilanum í ca. hálft ár. Hún bara eiginlega kemst ekki inn í eldhúsið mitt því það er á stærð við eldhús í barbíhúsi. Svo á ég líka ágætis kaffivél - þannig að réttlæta kaup á þessari gengur ekkert alltof vel. 


Svo fengu allir þetta ljómandi fína blóm til að hafa með sér heim. Sjáum hvað það helst lengi ljómandi fínt í mínum húsakynnum. Mér hefur aldrei tekist að halda lífi í neinu nema barninu mínu. Öll blóm og gæludýr sem komist hafa í tæri við mig hafa beðið bana á einn eða annan hátt. Þannig að þetta verður verðugt verkefni að takast á við. 

No comments:

Post a Comment