Nov 23, 2012

Up close and personal: að vera sáttur við sjálfan sig.

Ég er á rosalega ruglingslegum stað í lífinu þessa dagana. Í fyrsta skipti, nánast frá því ég man eftir mér, hef ég ekkert út á mig að setja. Ég er ekki að segja að ég vakni á hverjum morgni og langi í sleik við spegilmynd mína af því ég er svo æðisleg. Langt frá því, í hvert skipti sem ég sé mig í spegli í morgunsárið þakka ég Guði fyrir að ég vakna alltaf langt á undan Gumma.

Það sem ég á við er að loksins er ég sátt í eigin skinni. Guð einn veit að mikið hef ég brasað við að reyna að umturna sjálfri mér í gegnum árin. Með mjög misgáfulegum aðferðum sem á endanum komu mér næstum í gröfina.

Árið 2007 eignaðist ég afkvæmið. Þá smám saman fór allt til fjandans. Ég fékk gallsteina á meðgöngunni og þurfti að útiloka ýmislegt óhollt úr matarræðinu til þess að liggja ekki grenjandi úr magaverkjum allan daginn. Á þessu tímabili fauk hvert kílóið á fætur öðru.

Um sumarið 2008 var ég komin í ljómandi fín mál - líkamlega séð. En hausinn fylgdi ekki með. Ég sá alltaf sama hlunkinn í speglinum og fannst það algjör firra að ætla að hætta í megrun. Ég varð að vera í megrun því ég var ennþá feit!

Ég ætla mér svo sem ekki að fara út í nein smáatriði. Ég hef litla lyst á að rifja ítarlega upp þessi skuggalegustu ár lífs míns, tímabilið frá sumri 2008 til sumars 2010. Ég veit heldur ekki nákvæmlega hverjir eru að lesa og það er pínulítið undarlegt.

Líf mitt þessi tvö ár snerist ekki um neitt annað en að telja kaloríur og finna leiðir til þess að sneiða hjá samkomum og hittingum þar sem ég vissi að matur væri í boði. Það snerist allt um að forðast mat og ég refsaði mér harkalega ef ég bugaðist og lét undan svengdinni. Öll mín persónuleikaeinkenni hurfu á þessum tíma. Háværa stelpan (konan, ókei) sem alltaf hló hæst og talaði mest var hvergi sjáanleg. Ég var naumlega á lífi.

Þegar ég horfi til baka þá skil ég ekki hvernig ég gat orðið svona sjúk. En á þessum tíma fannst mér ég fullkomlega heilbrigð - ég var bara í smá aðhaldi. Ég geri mér fulla grein fyrir því núna að þetta er geðsjúkdómur. Geðsjúkdómur sem mun líklega fylgja mér alla ævi. Við vissar aðstæður skjóta ýmsar hugsanir upp kollinum en ég er orðin ansi góð í að útiloka þær. Þær verða líka færri og færri með tímanum.

Að grafa mig upp úr þessari holu er erfiðasta verkefni sem ég hef tekist á við. En á einhverjum tímapunkti virðist ég hafa séð ljósið sem svo margir höfðu reynt að benda mér á. Eftir áramótin 2010 tók við nýr kafli, fáránlega erfiður og held ég að honum sé fyrst að ljúka núna.

Ég veit að margar færslur hérna innihalda tal um ræktina og grín að holdafari mínu. En það er bara blaður. Eiginlega eitthvað sem puttarnir skrifa og hausinn hugsar ekkert um. Góðlátlegt grín sem ristir ekkert sérstaklega djúpt. Ef svo má að orði komast.

Í dag tel ég mig hvorki feita né mjóa. Ég er hætt að skilgreina holdafar mitt. Ég er eiginlega bara ég. Ég eins og ég er sátt við að vera. Það er góð tilfinning.

Ég leitaði mikið af myndum frá þessum tíma en uppskar lítið. Ég virðist hafa hent þeim öllum. Þetta er ekki eitthvað sem ég kæri mig um að muna eftir. Ég fann samt þrjár, tvær þar sem sést aftan á mig og eina ömurlega mynd tekna á hlið þegar ég var búin að bæta á mig 10 kílóum vorið 2010 - þær gefa kannski einhverja mynd af þessu helvíti sem þetta tímabil var.




Hrós til þeirra sem nenntu að lesa. Ég fæ ekki hrós. Ég væri nefnilega hugsanlega orðin prófessor í mannfræði ef ég eyddi jafnmiklum tíma í að læra og ég eyði í að blogga!

15 comments:

  1. ég fékk gæsahúð!! mikið agalega finnst mér dugleg ad skrifa þessa frábæru færslu!! <3

    ReplyDelete
  2. Ég fékk líka gæsahúð!! Btw þá fannst mér þú líta stórglæsilega út þegar ég sá þig í síðustu viku :)

    ReplyDelete
  3. Ég dáist að þér Guðrún ! finnst þú ótrúlega flott og hugrökk að hafa skrifað síðustu færslu :-) Að vera sáttur með sjálfa sig og vera ekki alltaf að skilgreina sjálfa sig sem annað hvort feita eða mjóa er svo innilega ekki sjálfsagður hlutur !

    Innilegur sannleikur að maður á að vera sáttur með sjálfa sig eins og maður er...skiptir heldur ekki máli hvað öðrum finnst...ég gleymi oft að minna sjálfa mig á það ;-)

    flott blogg hjá þér !

    ReplyDelete
  4. <3 Þú ert mögnuð!

    ReplyDelete
  5. Falleg ertu kona !! og mikill dugnaðarforkur !!
    Hrós á þig !! Átt það svo sannarlega skilið !!

    ReplyDelete
  6. Takk fyrir pistilinn, það þarf kjark til að opna sig svona! Best af öllu er að þú ert komin aftur og við fáum að fylgjast með fjörinu sem þér fylgir hér á blogginu :D

    kv. Maggý

    ReplyDelete
  7. Elsku vinkona, var að lesa þetta fyrst núna.
    Ótrúlega flott hjá þér að opna þig svona með þetta og skrifa um þetta tímabil þitt. Ég er óendanlega þakklát fyrir að fá þig aftur, fannst þú einmitt týnd á þessum tíma og þú varst ekki þú sjálf.
    Ég saknaði þín!

    Það var gaman hjá okkur í jólaklúbbnum og þú lítur dásamlega vel út! Falleg og skemmtileg!

    ReplyDelete
  8. Svo flott og falleg skrif, takk fyrir að deila! x

    knús

    ReplyDelete
  9. Þú ert glæsileg eins og þú ert núna Gúlla mín.
    Þessi tími var agalegur, og bara eftitt að geta ekkert gert.
    Þvílíkur meistari sem þú ert að rífa þig upp úr þessu.
    Saknaði einmitt KONUNAR sem var með öll lætin, hláturinn og krullurnar út um allt. Hún hvarf um tíma en miki svakalega er ég fegin að hávaðaseggurinn er aftur kominn til okkar elsku dúfan mín :*
    Takk fyrir þessi skrif, maður táraðist.

    ReplyDelete