Jólin mín koma í kvöld. Um leið og ég geng inn um dyrnar hjá mömmu og pabba og anda að mér svo sterkri skötulykt að nefhárin sviðna. Ó hvað ég hlakka til. Ég borða samt ekki skötu. En lyktina elska ég. Þessi lykt færir mér jólin.
Mín þorláksmessuhefð er að borða pylsur. Ég, yngri systir mín og sonur minn troðum okkur út af SS pylsum á meðan við fylgjumst með öðrum fjölskyldumeðlimum borða skötu. Alveg hreint yndisleg stund.
Síðan skunda ég heim og set útvarpið í botn - ég missi sko ALDREI af þorláksmessutónleikum Bubba Morthens. Ég elska Bubba. Meira en ég kæri mig um að viðurkenna. Meðan Bubbi minn ómar dunda ég mér við að búa til sherryfrómas og undirbúa hádegisverðarboðið mitt sem er á að aðfangadag.
Það er nú líka alveg bráðnauðsynlegt að dekra við sig með smá hvítvínstári á þorláksmessukvöld. Ég dreg hér með tilbaka orð mín síðan í gær um að ég myndi aldrei snerta vín aftur. Það var bölvaður þvættingur.
Njótið dagsins - þorláksmessa er nefnilega alveg dásamlegur dagur!
No comments:
Post a Comment