Jan 13, 2013

Elsku útlönd.

Þó ég sé nú örlítil eyðslukló svona annað slagið þá er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en að eyða peningum í eitthvað ákveðið og finna það svo miklu ódýrara annarsstaðar. Það gerir mig brjálaða. Mér þykir nefnilega ákaflega vænt um peningana mína.

Á þessum árstíma ligg ég inn á heimasíðum hjá ferðskrifstofum í veikri von um að finna sæmilega ódýrt sumarfrí handa mér, sambýlismanni og syni. Ég get ekki sagt að mér finnist íslenskar ferðaskrifstofur mjög spennandi - það eru allir með sama verð og nákvæmlega engin samkeppni í gangi.

Í gærkvöldi fór ég inn á þessa síðu. Þar athugaði ég hvað tvær vikur á fjögurra stjörnu hóteli á Tenerife kosta fyrir okkur þrjú. Með flugi að sjálfsögðu. Verð á slíkri ferð fór yfir 700 þúsund íslenskar krónur.

Þannig að ég fór á stúfana og kíkti á erlendar ferðskrifstofur - með þann möguleika í huga að við gætum flogið Ísland-London-Tenerife. Hérna fann ég þriggja vikna ferð á sama hóteli og ég hafði verið að skoða hjá Heimsferðum og kostaði sú ferð rétt rúmlega 400 þúsund. Með flugi frá London. Ég kíkti síðan á WOW og fann flug fyrir okkur til London á tæplega 90 þúsund.  Fjögurra tíma bið á Gatwick-flugvelli áður en við förum í flug þaðan til Tenerife. Og svipaður biðtími þegar við förum heim aftur.

Sem sagt ef við förum Ísland - London - Tenerife (og sömu leið heim aftur) fáum við þriggja vikna ferð á rúmlega 500 þúsund. Tveggja vikna ferð á sama hótel með beinu flugi frá Íslandi kostar langt yfir 700 þúsund.

Það þarf ekki að hugsa þetta mál neitt. Auðvitað kýs ég að spara mér 200 þúsund og fá viku aukalega í þokkabót.

Ég á alveg mína hagsýnu hlið.


Dásamlegt kvöld á Tenerife 2008.


Skór sem ég keypti á Tenerife 2009. Það má gera ljómandi góð skókaup á þessari eyju. Bæði pörin er löngu horfin úr mínum fórum. Mjög dularfullt mál en þessir skór finnast hvergi. Sambýlismaðurinn liggur undir grun. Hann hataði þessa skó mína talsvert mikið.


Árið 2010. Ég fæ fiðring í magann við að skoða þessar myndir.


Feðgar að njóta lífsins á Tene 2011. Það eru góðar líkur á að mér verði stútað fyrir að setja þessa mynd inn.


Þessir tveir kunna svo sannarlega að hafa það gott. Feðgar árið 2012. 

Ég er dálítið hrædd um að síðan verði til myndir frá Tenerife árið 2013. Ég bara get ekki hugsað mér sumarið án þess að fara þangað. 

Bara ein ferð til Tene í viðbót. Svo er ég hætt. 

No comments:

Post a Comment