Feb 6, 2013

Bótoxmaski!

Ef þið hafið einhverntímann horft á Oprah Winfrey þá gætuð þið mögulega kannast við mann sem kallar sig Doctor Oz. En hver hann er skiptir kannski ekki öllu máli í þessu tilfelli. Heldur ætla ég að kynna ykkur fyrir maska sem þessi læknir heldur fram að jafnist á við bótoxmeðferð.


Innihald:
1/4 bolli  hrein jógúrt
1/2 banani (stappaður)
1 tsk hunang

Bananinn á helst að vera mjög vel þroskaður. Slíkt er sjaldséð á þessu heimili þar sem við borðum álíka mikið af banönum og meðalstór górillufjölskylda. Þannig að nokkuð eðlilega þroskaður banani var látinn duga í þetta skiptið.


Þessu er öllu blandað fallega og vel saman.


Maskanum er síðan smurt á andlitið og mælt með að maður slaki á meðan hann í 15 mínútur. Til þess að ná sem bestum árangri segir Dr.Oz vinur minn að gott sé að leggja heitan klút yfir andlitið á meðan.


Afganginn af mixtúrunni má síðan geyma í ísskáp. Maskann á að nota 1-2 í viku til þess að stinna og mýkja húðina. Ég er nú samt viss um að þetta geymist ekkert alltof lengi. Þess vegna er örugglega ágætt að minnka hlutföllin ef maður ætlar bara að dunda sér við þetta annað slagið. 

Ég er nýbúin að skola maskann af andlitinu á mér. Húðin á mér er silkimjúk og mér finnst hún stinnari en venjulega. En það er kannski bara svona fyrst. Ég er reyndar alltaf mjög stinn. Allsstaðar.

Það fylgir maskanum dálítill sviði á meðan hann er á andlitinu. Ekkert óbærilegt samt. Ég vil hafa smá sviða þegar ég er á annað borð að smyrja einhverju svona á mig. Þá finnst mér eins og það sé einhver virkni í gangi. Þó ég hafi samt ekki hugmynd um það.

Það eru nú hugsanlega smá ýkjur hjá doktornum að segja að þetta virki eins og bótox. 

En ég ætla samt að prófa. Taka nokkrar vikur og maka þessu á mig reglulega. 

Sjáum hvað setur. 

No comments:

Post a Comment