Feb 19, 2013

KrukkuCappuccino.

Ég elska cappuccino. Ég er samt ekki alveg tilbúin til þess að splæsa í bolla á hverjum degi. Sambýlismaðurinn fengi líka áfall ef ég gerði kaffiútgjöld heimilisins mikið meiri. Nóg er á hann lagt nú þegar.

Það sem þarf í þessar aðgerðir er krukka með loki, nýmjólk, kaffi (auðvitað á það helst að vera expresso) og örbylgjuofn.



Mjólkinni er hellt í krukku. Ég notaði þessa ljómandi fínu sultukrukku. Síðan er lokinu smellt á og krukkan hrist tryllingslega í rúmlega 30 sekúndur. Að því loknu skellið þið henni strax í örbylgjuofn í aðrar 30 sekúndur. 

Verið klár með kaffi í bolla og notið skeið þegar þið hellið heitri mjólkinni út í kaffið. Skeiðina hafið þið við krukkuopið þegar þið hellið, þannig að mjólkin fari fyrst ofan í bollann og froðan verði eftir. Síðan mokið þið froðunni ofan á kaffið þegar ykkur finnst komið nóg af mjólk.


Það er auðvitað fáránlegt magn af kaffi í þessu bolla. Ég bý bara ekki svo vel að eiga neina litla krúttlega kaffibolla. Ég átti heldur ekki expresso fyrir þessa tilraun þannig að ég lagaði bara hryllilega sterkt kaffi og það virkaði bara alveg ágætlega.



Þetta var alveg hreint dásamlegur bolli. Kannski ekki nákvæmlega eins og cappuccino en nógu nálægt því fyrir mig.

(Hugmyndin er fengin héðan).

2 comments: