Glæný berjasulta hjá mömmu. Svo dásamlega góð. Móðir mín er sem betur fer fullkomlega meðvituð um skort minn á húsmóðurhæfileikum og var svo væn að gefa mér fáeinar krukkur.
Ég bakaði ekki bara í gær. Nei ég bakaði sko líka í dag. Mér er ekki viðbjargandi.
Rauði krossinn svíkur mig ekki. Heilar 300 krónur fyrir þessa stórglæsilegu skyrtu. Góð kaup það.
Þetta var ekki alveg á Rauða krossprís en ég bara varð að eignast að minnsta kosti eitt naglalakk úr nýju línunni frá OPI - San Francisco. Ég hef reyndar augastað á öðru líka. En við skulum ekki hafa hátt um það. Sambýlismaðurinn les þetta.
Ég var að taka til á baðherberginu í morgun. Á meðan tiltektinni stóð var ég í geðsýkiskasti, blótaði hillu- og plássleysi í sand og ösku. Svo ekki sé minnst á þessar fjárans flísar sem þið sjáið glitta í á myndinni. Ó, ég græt yfir þeim á hverjum degi.
Í miðju kasti staldraði ég aðeins við og taldi allar hillurnar á baðherberginu. Þær eru átján talsins. Ég horfði síðan aðeins betur í kringum mig og sá að eina plássið sem tilheyrir sambýlismanninum er örlítið hilluhorn (eins og myndin sýnir). Þar geymir hann þrjár rakspíraflöskur og úr. Restin af baðherginu virðist tilheyra mér. Sautján og hálf hilla.
Ég sem var komin á flug. Geðsýkisflug. Ég var að gera mig klára í að hringja í hann og röfla (mjúklega sko) yfir eilífu plássleysi og því að bölvaða draslið hans væri alltaf út um allt.
Ég snarhætti við þau plön.
Jæja, mín bíður nýtt naglalakk og spáný rauðvínsflaska.
Heyrumst.
ég bara VARÐ að splæsa í svona lakk þegar ég sá það hjá þér... frekar mikið fínt :)
ReplyDeletejááá það er alveg dásamlega fallegt!
Delete