Dec 2, 2013

Sunnudagur til sælu.

Ég er afar lánsöm þegar kemur að vinum mínum. Þeim finnst öllum gott að borða. Mikið og óhollt. Eins og undirritaðri. Það þurfti ekki nema eitt símtal í gærkvöldi og ég var komin í Hafnarfjörð að elda svínfeita hamborgara löðrandi í bernaisesósu.


Nei allt í lagi. Það voru ekki bara snæddir hamborgarar. Þessi snæðingur var tekinn alla leið fyrst að bernaisesósan var á annað borð á matseðlinum.


Ekki borðar maður hamborgara án þess að hafa franskar. Það er bara eins og að fá sér epli án hnetusmjörs. Ekki hægt.




Mér finnst ákaflega skemmtilegt að koma á falleg heimili. Sérstaklega ef þau prýða kertastjakar sem eru dýrari en allt mitt innbú. Þegar ég flutti suður í haust komst ég einmitt að þeirri sorglegu staðreynd að allar mínar föggur komast í einn lítinn Yaris. Allt. Ég er 28 ára og allar mínar veraldlegu eigur passa í bíl á stærð við sæmilegt kvenmannsveski. 



Þetta var prýðilegt kombó. Mozzarellastangir og bernaisesósa. Það er ekki nóg með að okkur finnst gott að borða óhollt heldur höfum við einstakt lag á því að gera óhollan mat miklu óhollari. Ef svo má að orði komast.



Afskaplega gott. Já ég borðaði allt sem er á disknum. Og meira til. Virkilega huggulegt kvöld í góðum félagsskap.

Í dag er nýr dagur og í kvöld fer ég á fyrstu æfinguna í stórskemmtilegri íþrótt. Meira um það síðar. Já og ég ætla líka að borða hollt. Frá og með núna. Oreokexið sem ég borðaði í morgunmat var dómgreindarleysi. Ég var líka hálfsofandi og sá ekkert hvað ég var að borða.

Frá og með núna. Hollt.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment