Dec 3, 2013

Pole Fitness.

Aldrei ræðst ég á garðinn þar sem hann er lægstur. Ég hef ekki stundað íþróttir síðan Ingólfur nam land og fannst frábær hugmynd að fara að leggja stund á súlufimi. Súludans. Hvað sem þið viljið kalla þetta.


Fótleggirnir á mér líta svona út í dag. Ekki sólahringur frá síðustu æfingu og rétt rúmlega sólahringur í þá næstu. Ég er svo gott sem rúmliggjandi eftir þetta ævintýri. Ég eiginlega get ekki gengið af því að ég er svo marin á báðum lærum og þegar þau strjúkast saman þá bara dey ég. Steindey. Ég festi einmitt svefn klukkan að ganga sex í morgun af því ég þurfti að sofa með aukasæng og þrjá púða á milli læranna. 

Ég get varla lyft handleggjunum nógu hátt til þess að koma mat upp í mig, greiða mér, klæða mig eða mála. Hausinn á mér snýst bara til hægri og það er virkilega sársaukafullt að anda og hlæja. Sem er mjög bagalegt, ég geri nefnilega frekar mikið af báðu. 

Systir mín benti mér góðfúslega á að það væri víst mjög gott að skella lauk á svona marbletti. Ástand fótleggja minna er nefnilega ekki nægilega slæmt - best að lykta eins og laukur á milli læranna líka. Almáttugur. Ég hugsa að ég láti það eiga sig. 

Ég rosalega spennt að smella helbláum lærum mínum aftur utan um súluna á morgun. Ég geri svo fastlega ráð fyrir að þurfa að láta aflima mig á fimmtudag. 

Heyrumst.

2 comments:

  1. eg í alvuru hló sjúklega mikið - sem er ljótt því maður á ekki að hlægja af óförum annarra - en þetta er frekar fyndið !

    ReplyDelete