Það var svo ferlega vont veður í gær. Hvað gera bændur þá? Baka. Ó, þeir baka.
Þessar eru svakalegar. Mín hefðbundna mánudagsmegrun var eyðilögð á núll einni. Ekki hófst þessi ágæti þriðjudagur betur. Það hafa þónokkrar kökur fallið í valinn það sem af er morgni.
Twixsmákökur.
1 og 1/2 bolli af mjúku ósöltuðu smjöri
3/4 bolli púðursykur
1/4 bolli sykur
1 stórt egg
2 teskeiðar vanilludropar
2 bollar af hveiti
2 teskeiðar Maizenamjöl
1 teskeið matarsódi
Fáein korn af salti
1 og 1/2 bolli saxað Twix
3/4 bolli dökkir súkkulaðidropar
Byrjum á því að hræra saman smjörið, púðursykurinn, sykurinn, eggið og vanilludropana. Þetta er hrært í góðar fimm mínútur - þangað til mixtúran er létt og ljós.
Já. Ég á Kitchen Aid vél. Höldum því til haga.
Nei, ég var ekki að gifta mig í laumi. Amma mín heitin átti hana og afi minn heitinn gaf mér hana eftir hennar dag. Mín dýrmætasta eign fyrir utan afkvæmið.
Þegar eggja- og sykurblandan er vel hrærð og fín bætum við restinni af hráefnunum saman við. Fyrir utan Twixið og súkkulaðið. Sú dýrð fer síðast ofan í skálina.
Hrærum súkkulaðið varlega saman við. Síðan þarf deigið að hvíla í ísskáp í góða tvo tíma eða svo. Ömurlegir tveir tímar það. Ég hefði ekki einu sinni lagt í þessa uppskrift ef ég hefði lesið hana til enda áður en ég hófst handa. Ég las bara Twix og var ósjálfrátt komin með bölvaða hrærivélina upp á borð.
Jæja. Tveimur erfiðum tímum síðar.
Feita barnið sem ég var yfirgefur mig auðvitað aldrei. Þess vegna bætti ég aukabitum af Twixi ofan á kökurnar áður en þær fóru inn í ofninn.
Kökurnar fara inn í heitan ofn á 175° og dúsa þar í sirka átta mínútur. Það þarf svo að leyfa þeim að kólna vel eftir að þær koma út.
Ég legg ekki meira á ykkur.
Bakið þessar.
Heyrumst.
Lord have mercy!
ReplyDeleteÞessar verða bakaðar STAT - nammnamm og Twix er svo gott! og engar hnetur! :)
Ég á ekki örbylgjuofn, borvél, uppþvottavél, þvottavél né straujárn - en Kitchen Aid er (ásamt AppleTVinu) heilagasta eignin og must have á hvert heimili.
Knús yfir hafið - í DK er 16°C og sól og blíða í dag :)
x H
Hahahaha. Ég á ekki heldur neitt af ofantöldu. Jú, forlátan örbylgjuofn auðvitað. Má ekki gleyma honum. AppleTV - þarf ég það? Hef ég tíma til að eiga það?
Delete16° C - nei, nú kem ég og við verðum alvöru vinir bara, hættum þessu pennaveseni!