Mar 10, 2014

Hárið mitt.


Jú, þetta er enn í fersku minni hjá ykkur vænti ég. Þegar ég smellti mér í hárgreiðslustól og lét klippa mig stutt fyrir mánuði. Aldeilis sem ég brokkaði kampakát út af hárgreiðslustofunni þennan daginn. 


Nei, þessi umrædda kátína mín stóð ekki lengi. Eina helgi eða svo. Að henni lokinni fannst mér ég vera það ljótasta undir sólinni. Fyrir utan það að ég lít út fyrir að vera sirka 12 kílóum þyngri svona stutthærð. Ekki er nú á þann andskota bætandi.  


Ég var svona hress með þessa fljótfærni í mér. Þá sjaldan sem ég er fljótfær. Maður á að ofhugsa hluti. Ég ætla að halda því áfram.

 Á þessum tímapunkti var ég búin að gera flesta nokkuð þreytta á mér. Ég röflaði sífellt yfir hárinu á mér og var búin að taka þá ákvörðun að vera upp í rúmi eitthvað fram á haustið. Svo sagði amma líka að síða hárið færi mér betur. Það gerði útslagið. Amma veit auðvitað best.


Það var ekkert annað í stöðunni en að fá sér hár. Ég var stutthærð, ljót og við það að verða vinalaus út af allri hárdramatíkinni. 

Já. Ég fékk mér hárlengingar. Það má vera að það séu skiptar skoðanir á slíkum verknaði en mér er alveg sama. Mikið sem mér líður betur. Ekki lengur eins og ljótum, skegglausum karlmanni. Jú og feitum í þokkabót. Ég er alltof breiðleit og búsældarleg fyrir stutt hár. 


Ég er voðalega sátt með nýfengið hár. Ég fékk það hjá Hárlengingar.is þar sem sennilega vinnur viðkunnalegasta fólk sem ég hef hitt. Ég mæli með þeim ef þið eruð í hárkaupahugleiðingum. 

Eins og þessar myndir gefa augljóslega til kynna er ég orðin manískur hárbandasafnari. Ég get aldrei átt neitt bara í einum lit. Hvorki föt eða annað. Ef mér finnst eitthvað fallegt þá verð ég að eiga það í fleiri en einum lit. Helst öllum litum. 
  
Ég þjáist auðvitað illilega af krónískri söfnunaráráttu. Alveg sama hvað um ræðir. Matur, varasalvar eða naglalökk. Ég sanka öllu að mér í óeðlilegu magni. 

Jæja. Ég ætla að fara að flétta hárið mitt. Sem ég elska.

Heyrumst.

4 comments:

  1. hahaha :) þú litli api !! vona samt svo sannarlega að þú hafir látið mynda þig bera að ofan til að skella í safnið hjá hárlengingar.is !! ég amk bíð afar spennt að sjá

    ReplyDelete
  2. Hvar fékkstu svona fín hárbönd? :)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Bláa hárbandið er úr Leynibúðinni á Laugarvegi og það græna frá Level í Mosfellsbæ.

      Delete
  3. Hvaðan er hárbandið? Gegjað flott

    ReplyDelete