Dec 2, 2014

Þessa dagana.


Ég kvaddi Breiðholtið í gær. Mikið sem þessi íbúð var orðin mér hjartfólgin. 

Eða, kvaddi - það er sennilega ekki rétt til orða tekið. Ég fór bara yfir í næstu blokk. Tímabundið. Mjög tímabundið. Til tveggja karlmanna. Ah, ekki verða æst eða spennt. Hér er ekki um að ræða einhverskonar þríeyki. Nei. Annar þeirra er litli bróðir minn. Hinn kemst einnig nokkuð nálægt því að vera bróðir minn. Á einhverjum tímapunkti hef ég örugglega lamið þá báða. Svona á árum áður. 

Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því út í hvað ég var að fara. Sá bara einn leigulausan mánuð í stórkostlegum hyllingum. Jú og vellystingum. 



Ég eyddi drjúgum tíma í gærkvöldi að reyna að útskýra fyrir þeim að treflar ættu heima inni í fataskáp. Lokuðum fataskáp. Eða bara á hálsi. Aldrei veggjum. Oh, augun mín.


Ekki tókst þeim að gefa mér haldbærar útskýringar á því af hverju bæði pottaleppar og tómar safafernur prýða sjónvarpsskenkinn. Inni í stofu. 


Ég ferjaði farangur minn hingað yfir seinnipartinn í gær. Nýtti tækifærið og myndaði kvöldmatinn þeirra. Síðan kvöldið áður nota bene. 

Ég hafði ýmsar efasemdir um þessa dvöl mína í gærdag. Það hefur hinsvegar orðið viðsnúningur þar á. Seint í gærkvöldi var gólað úr eldhúsinu: ,,Guðrún Veiga, má bjóða þér mangó?". Ókei, engar Bingókúlur en fallegt boð. Í morgun var ég svo vakin með orðunum: ,,Guðrún Veiga, má bjóða þér egg?". 

Ég sé þessa sambúð alveg ganga upp. 

Mig vantar samt 3ja herbergja íbúð frá og með 1.janúar. Þið hafið það á bak við eyrað.

Annars fara mínir dagar aðallega í að sprella á vinnustöðum víðsvegar um borgina með bók í hönd, ritgerðarskrif, kaffiþamb, leit að veskinu sem ég týndi um helgina, upphitun á 1944 réttum, poppframkvæmdir, poppát og síendurtekið áhorf á Elf.



Allt í lagi. Ég veit að ég hef sett þetta inn áður. Oftar en einu sinni. Oftar en tvisvar. Það er bara ekkert sem kætir mig meira en þetta atriði. 

Heyrumst fljótlega.

(Ég biðst forláts á arfaslökum símamyndum. Flutningar og allt það. Finn ekki myndavélina mína. Örvænti yfir því síðar).

1 comment:

  1. Haha treflar jà hvernig karlmönnum dettur í hug að þetta flokkist undir veggjaskraut er ofar mínum skilningi en það drjúgan tíma að koma því inn í kollinn à mínum manni ;)
    Gangi þèr vel næsta mànuðinn og èg treysti à að þú komir austur í jólabókaflóðið :)
    Kv. Halla Dröfn

    ReplyDelete