Aug 10, 2015

Dögurður á Public House


Ég hef margsinnis reynt að tæla sambýlismanninn með mér í dögurð. Já, ég ætla að nota orðið dögurður. Ekki brunch. Dögurður er meira lekker. Hljómar svo fágað. 

Burtséð frá fágun og lekkerheitum þá höfum við svolítið ólíkar hugmyndir um dögurð. Ég vil fara út og láta aðra gefa mér að borða. Sambýlismaðurinn vill vera heima. Og borða beikon og bakaðar baunir á brókinni. 

Sem er ágætt annað veifið. Og svolítið okkar stíll. Við erum fólk sem borar stundum í nefið. Og borðum matinn okkar á brókinni. Stundum borðum við kvöldmat. Og göngum ekki frá eftir hann fyrr en daginn eftir. Sjaldgæft þó. En hefur skeð. 

Ehm, að vísu ekkert sérstaklega sjaldgæft þegar sambýlismaðurinn er á sjó. En það er allt önnur saga.

Annað slagið kemur fyrir að sami þvotturinn þarf tvær umferðar í þvottavélinni. Af því ég gleymi honum þar í viku eftir fyrstu umferð. Ég á þvott á snúrunni niðri í sameiginlega þvottahúsinu. Sem ég hengdi upp í janúar. Reyndar bara taupoki og ósamstæð koddaver. En samt. 

Ég brýt líka sárasjaldan saman þvott. Við fjölskyldan göngum bara í sameiginlega fataskápinn. Sem er á stól í stofunni. Þar sem ég grýti þurrum þvotti. Ég á ekki straujárn. Og þríf helst ekki fyrr en ég sé skít. 

Já. Nóg um mitt ekki svo fágaða og lekker heimilislíf. Við fórum í dögurð. 



Ég fékk mínu framgengt. Við fórum í föt. Hrein meira að segja. Og fórum út úr húsi. 

 


Við skröltum á Public House Gastropub sem er hérna í næsta nágrenni við okkur. Á Laugavegi 24 nánar tiltekið. Þvílíka hossandi hamingjan sem þessi staður er. Matseðillinn þar einkennist af smáréttum. Sem þýðir að ég gat pantað sjö diska. Án þess að særa blygðunarkennd viðstaddra. 



Já. Sál mín söng. Rassinn stækkaði lítið eitt. Sambýlismaðurinn sparkaði ítrekað í mig undir borðinu. Af því ég sleppti út einni unaðsstunu. Eða tveim. Og gerði mig líklega til þess að sleikja diskinn minn. Eða bara alla diskana. Hans líka.

 



Þessar sætkartöflufranskar. Guð á himnum. Stundum dreymir mig um þær. Blauta drauma. Djók. Eða já. Næstum. 


Ég get ekki mælt nógsamlega með þessum stað. Þetta var í annað skipti sem ég dett þarna inn. Og svo sannarlega ekki í það síðasta. 

Ég þarf að kynna mér hvort það sé í boði að fá þessar franskar í take-away. 

Uss, djöfull sem við erum þá að dansa. 

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment