Jan 7, 2016

Fimm hlutir í fésið á fimmtudegi


Ég mála mig á hverjum degi. Fyrir sjálfa mig. Af því mér finnst ég sæt vel meikuð. Með blússandi bleikar kinnar. Glossklístraðar varir. Og margar umferðir af maskara. 

Ég er samt ekki sæt á hverjum degi sko. Nei. Stundum er ég að flýta mér. Og þá er eins og Stevie Wonder hafi málað mig. 

Þessi málningarvinna tekur þó að öllum líkindum enda á næsta þriðjudag. Þá fer ég í fyrsta Crossfit-tímann minn. Og verð hugsanlega rúmliggjandi á Reykjalundi þangað til ég fermi afkvæmið. Eftir fimm ár. 

Ég hef ekki farið í ræktina síðan í janúar. Á síðasta ári. Og mig langar talsvert meira að remba einu stykki barni út um veislusalinn á mér en að mæta í þennan tíma. Eða bara sjö börnum. Í einu. Fá alla sjö hausana út um leggöngin um leið. Og verða svo ólétt aftur. 10 dögum seinna. Af öðrum sjöburum. 

Jú, þið lásið rétt. Ég kallaði leggöngin á mér veislusal.

Ehm, af hverju er ég að fara í Crossfit?

Ég andskotans veit það ekki. Af því ég er dæmalaust meðvirk. Og á ömurlega vinkonu. Eða fyrrverandi vinkonu. Svo það sé á hreinu.

Jæja. Burtséð frá því að vofeigilegur dauðdagi minn sé yfirvofandi þá eru fáeinar snyrtivörur sem mig langar að ræða. Og taka saman fyrir líksnyrtirinn. Svona ef næsta vika fer á versta veg. 

Þessar vörur hafa verið í notkun lengi. Og ég elska þær. Allar með tölu.



Þessi gerviaugnhár sko. Ravishing frá Social Eyes. Ég elska þau. Henta vel fyrir konu eins og mig - sem er með fínhreyfingar á við vanþroska kálf. Augnhárin eru stíf þannig að ásetningin er talsvert auðveldari en ella.

Helst vildi ég skarta þeim á hverjum degi. En það gengur ekki að ég sé alltaf sætasta stelpan á ballinu. Það þarf að leyfa öðrum blómum í beðinu að blómstra líka. 

Social Eyes fást á haustfjord.is



Kinnalitur frá Max Factor. Ég man ekki alveg hvenær ég keypti hann fyrst. Þetta er að minnsta kosti fjórða boxið. En það er kannski ekki að marka. Ég fer alltaf svolítið geyst í kinnalitinn. Eins og rauðvínið.

Ódýr og óneitanlega lekker.

Hann fæst víða. Að ég held. Ég hef yfirleitt fleygt honum í körfu hjá Heimkaupum.


Númer fimm. Lovely pink.


Ultra Repair Cream frá First Aid Beauty. Það eina sem virkar þessa dagana á andlitið á mér. Sem er yfirleitt eins og þurrkuð apríkósa. Sem búið er að stíga á. Fimm sinnum.

Ég er með krónískan húðþurrk. Sem fátt bítur á. Og ég hef sko prófað hvað flest krem undir sólinni. Ég vann lengi í apóteki. Þar var starfsmannaafsláttur og ég fékk aldrei krónu útborgað. Átti hins vegar rosalega mikið af kremum. Og ilmvötnum. Og augnblýöntum. En það er önnur saga.

Húðin á mér hefur sjaldan verið eins sallafín og núna. 

Ultra Repair Cream fæst á fotia.is


Pása. Ég var að taka myndir utandyra í dagsbirtunni. Þarna var ég búin að taka nokkrar myndir. Og mér var orðið svo kalt. Og illt í bakinu. Af því ég þurfti að beygja mig svo mikið til þess að mynda svona smáhluti.

Já. Ég hlakka rosalega til að fara í Crossfit. 



BB krem frá Garnier. Sem ég keypti í Bónus. Glettilega gott krem. Eina kremið sem gerir mig ekki appelsínugula. Eða bólótta. Eða almennt ljóta. 



Wake Me Up hyljari frá Rimmel. Keyptur í Hagkaupum í haust. Ég er ægilega skotin í honum þessum. Aðallega vegna þess að hann festist ekki í mínum sífjölgandi augnhrukkum. Og þekur vel. Sem er gott. Sérstaklega fyrir fólk með gapandi fjólubláa gíga undir augunum. 

Jæja. Ég er að fara í 10-11. Að kaupa sódavatn. Ekki af því ég er einhver snarheilbrigður vatnsdrekkandi andskoti. Nei. Ég ætla að hella rommi í það. Og hrásykri. Jafnvel myntulaufum ef vel liggur á mér.

Þið finnið mig á Snapchat & Instagram - gveiga85.

Heyrumst.
(Kannski)

1 comment:

  1. Ég hló 15 sinnum upphátt! þú ert uppáhaldið mitt

    ReplyDelete