Jan 13, 2016

Kjúklingasalat fyrir Crossfitiðkendur


Eða fyrir fólk sem mætir bara ekkert í Crossfit. Og er búið að fá námskeiðið endurgreitt. Og skammast sín niður í tær. Eða þið vitið, skammast sín alveg smávegis. Skömmin er að vísu afar blönduð gífurlegum létti. Og ég skammast mín eiginlega fyrir það líka.

Jæja.

Ég er þó löglega afsökuð. Aldrei slíku vant. Sápuóperan Guðrún Veiga, bráðamóttakan og laskaði eggjastokkurinn hóf nefnilega göngu sína aftur í gær. Eftir gott hlé. Fyrsta sería var sýnd í ágúst á síðasta ári. Það má lesa meira um hana hérna. 

Í síðustu seríu bólgnaði vinstri eggjastokkur. Rofnaði eitthvað í kviðarholi. Og blæddi inn á eitthvað. Og ég fann til. Svo mikið til.

 Í nýjstu seríunni hefur hægri eggjastokkurinn hins vegar tekið við keflinu. Orðinn vel bólginn. Auðvitað. Og búinn að snúa upp á sig. Eðlilega. 

Fyrsti þáttur í nýrri seríu hófst óneitanlega með látum. Grunur um botlangabólgu. Guðrún Veiga, sem hræðist fátt meira en svæfingar, gubbaði við tíðindin. Með sinn alræmda þokka að vopni. Í móttökusal bráðamóttökunnar. Í poka. Og yfir skóna sína. Þjáðum gestum og gangandi til bæði unaðar og yndisauka. 

Þættinum lauk á sjúkrabílaralli í skjóli nætur. Upp á kvennadeild. Niður með buxurnar. Í sundur með lappirnar. Hægri eggjastokkur heilsaði. Bólginn, snúinn og almennt óhress. 

Ég fann til. Mikið til. Og ég finn ennþá til. Mikið til.

Og er ófær um að stunda Crossfit. Ófær segi ég. 

Þá er það frá. 

Þetta kjúklingasalat er ekki fyrir Crossfitiðkendur. Nei. Heldur fyrir þjáða konu. Sem elskar beikon. Og sweet chilli sósu. Og Bingókúlur. Þær eru samt ekki í salatinu. Þó þær séu góðar með beikoni. 

Þetta salat er hnossgæti. Og ég biðst afsökunar á því að hefja uppskrift að salati með umræðum um eggjastokkana í mér. 

Ókei, salat.


Crossfitsalat

1 bakki kjúklingalundir
1 poki spínat
stór rauðlaukur
vel vænt bréf af beikoni
1 box kirsuberjatómatar
1 lárpera
lítil flaska sweet chilli sósa
1 dós nýrnabaunir
örlítið kóríander (má sleppa)


Skellið spínati í skál. Skerið tómata og lárperu og fleygið ofan í.


Skiptið rauðlauknum í tvennt og saxið báða helminga smátt. Annar helmingur fer í skálina og hinn tekinn til hliðar.


Skerið kjúklinginn í litla bita. Kryddið með salti og pipar og brúnið á pönnu.


Takið kjúklinginn til hliðar. Þrífið pönnuna. Af því við erum ekki ógeð. Eða notið aðra pönnu. Sem ég bý ekki svo vel að eiga. 


Setjið smátt saxað beikon, hinn helminginn af rauðlauknum og nýrnabaunirnar á pönnuna. Skvettið svolítið duglega af sweet chilli sósunni yfir og steikið þangað til beikonið tekur lit.


Blandið kjúklingnum saman við. Og svolítilli slummu af sósu. Eða bara tæmið flöskuna. Það er helvíti fínt. 

Leyfið þessu aðeins að malla.


Yfir salatið með herlegheitin.

Blanda, blanda og blanda.



Þetta er ægilega gómsætt. Best samt með glás af kóríander. En það er algjört smekksatriði. Ég elska kóríander. Gæti vel hugsað mér að skipta spínatinu alfarið út fyrir kóríander. 

Svona ef út í það er farið.

Jæja. Ég ætla að halda áfram að vera rúmliggjandi.

Þið finnið mig bæði á Snapchat og Instagram - gveiga85.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment