Dec 27, 2012

Daglegt líf.

Mikið rosalega var erfitt að fara á fætur í morgun. Þvílík martröð að kveðja náttfötin, sófann og konfektið.



Jólunum er ég búin að eyða nákvæmlega svona. Liggjandi í sófanum, íklædd náttfötum og með fulla kjöltu af konfekti. Ó svo notalegt.

Sambýlismaðurinn batt reyndar snögglega enda á þessi notlegheit í gær þegar honum tókst að fá risastóran kjöthníf á kaf í handlegginn. Afskaplega hressandi atvik. Og nei, ég stakk hann ekki.

Hann var að teygja sig eftir glasi uppi í skáp og þessi risahnífur var í uppþvottagrind fyrir neðan eldhússkápinn. Ég veit ekki hvernig atburðarrásin var nákvæmlega en allt í einu stóð hnífurinn næstum hálfur inni í upphandleggnum á honum. Við skulum hafa það í huga að það var hann sem vaskaði upp fyrr um kvöldið og skyldi hnífinn eftir standandi í þvottagrindinni. 

Ég var í mínu mesta sakleysi að tannbursta mig þegar ég labba inn á þessar hörmungar. Ég gat ekki einu sinni hlaupið að vaskinum til þess að skyrpa heldur byrja bara að froðufella og öskra á miðju eldhúsgólfi. Mjög aðlaðandi og skemmtilegt. 

Til þess að gera langa sögu stutta þá lifði sambýlismaðurinn af. Hann er hinn hressasti eftir heimsókn á læknavaktina í nótt og með nokkra sauma í handleggnum. Ég er hinsvegar ennþá með hjartslátt. Ég var að kafna úr geðveiki á meðan hann fór til læknis - drakk ca. 12 kaffibolla og borðaði hálfan konfektkassa. Ímyndunaraflið fór á flug og ég var viss um að hann myndi annað hvort missa handlegginn eða hreinlega ekki hafa þetta af. 

En hann skilaði sér heim. Lifandi. Með báðar hendur. Enda ekki þekktur fyrir að bregðast mér þessi elska.

2 comments:

  1. HAHAHA! ég elska hvernig þetta alvarlega heimilisslys snýst um þig í þessum pistli.
    þú átt skilið að kaupa þér eitthað næs. í alvöru!

    ReplyDelete
    Replies
    1. ég vissi að ég ætti stuðning þinn vísan!

      en samt sko, mesta álagið var á mér í þessu slysi. gummi rykkti bara hnífnum úr hendinni og neitaði að fara til læknis. í rauninni á hann líf mér sitt að launa því ég rak hann til læknis. jebb. ég má kaupa.

      Delete