Þristatoppar:
3 eggjahvítur
200 gr púðursykur
Poki af þristum
Eggjahvíturnar eru stífþeyttar og púðursykrinum svo smátt og smátt bætt við. Þristar saxaðir smátt niður og blandað svo varlega saman við sykur- og eggjahvítublönduna. Sett á plötu með teskeið og bakað við 175° í 10-15 mínútur.
Ég hef bakað þessar kökur síðustu fjögur ár án mikilla hrakfalla. En árið 2012 ætlar ekki að vera mér hliðhollt baksturslega séð. Þegar ég tók toppana út úr ofninum litu þeir fullkomlega út að mínu mati (ég bendi góðfúslega á myndina hérna að ofan). En eftir að hafa staðið í fimm mínútur á borðinu voru þeir orðnir fremur sjoppulegir greyin.
Þeir urðu bara að einhverjum klessum. Mjög dularfullt mál. Ég og minn litli bökunarheili nenntum ekki að velta þessu meira fyrir okkur og reyndum að bjarga þeim toppum sem hægt var.
Það voru þrjár kökur sem ekki urðu að leðju. Vei fyrir mér. Heppin að við erum bara þrjú í fjölskyldunni. Einn toppur á mann.
Þangað til næst.
No comments:
Post a Comment