Ég hef ræktað steinselju og baslíku í gluggakistunni minni í nokkur sumur í röð. Það hefur alltaf tekist með góðum árangri. Að minnsta kosti þegar ég man eftir að vökva þetta. Ég set nú yfirleitt niður myntu líka - enda drekk ég mjög ótæpilega af mojito yfir sumarið. Ég gleymdi bara að grípa hana með í þessari innkaupaferð.
Einn svona pakki kostar rúmlega 200 krónur - sem er ekki helmingur af því sem maður borgar fyrir einhver fáein grös úti í búð. Og þessar kryddjurtir endast manni allt sumarið - jafnvel lengur.
Það er örugglega best að setja þetta niður utandyra. En þar sem ég þjáist af krónískri hræðslu við allt sem ekki gengur upprétt þá læt ég gluggakistuna duga. Sambýlismaðurinn stundar reyndar jarðaberjarækt úti í garði. Ég kem ekki nálægt þeirri ræktun - tjah, nema þegar það þarf að borða uppskeruna.
Ég fann enga fallega blómapotta. Þannig að ég keypti bara risakaffibolla í staðinn.
Jæja, það er best að skella á sig garðhönskunum (við viljum ekki fá mold undir neglurnar) og hefjast handa.
Þetta gróðursetur sig ekki sjálft.
Kæra hagsýna húsmóðir!
ReplyDeleteEr s.s. komin tími til að sá? Ég er jómfrú í þessum efnum og keypti fyrir nokkru síðan fáeinar tegundir sem ég ætla að koma í lífi.
Í fyrra keypti ég basiliku hjá Önnu Heiðu. Hún fékk sl. haust stærri pott og meiri mold og hefur lifað góðu lífi í eldhúsglugganum (vestur) í allan vetur. Fékk öðru hvoru halógen ljósabað yfir nóttina. Með henni í "sólinni" var jarðaberjaplanta sem plumar sig ágætlega.
Þú ættir því vel að geta haldið í þessu lífi eftir sumarið... sérstaklega mintunni, hehe!
Kveðja, Harpa.
Kæra jómfrú!
DeleteJá mér skilst að marsmánuður sé eðaltími til þess að hefja ræktun.
Mikið líst mér vel á að geta átt basilíku allt árið - ég hef alltaf bara hent þessu þegar fer að hausta. Það verður ekki gert í ár - jah, nema myntan fer í ruslið - annað væri hættulegt fyrir lifrina.
Kveðja, hagsýna húsmóðirin.