Það getur mögulega átt einhvern þátt í þreytu minni að mér fannst rosalega góð hugmynd að keyra beint heim eftir að við lentum í Keflavík eftir miðnætti í gær. Beint heim já - rúmlega 600 kílómetra eða svo. Ég talaði sambýlismanninn inn á þessa stórfínu hugmynd með því að lofa að við tækjum bara vaktaskipti við keyrsluna. Við myndum bara sofa og keyra til skiptis. Ekkert mál.
Ætli ég hafi ekki keyrt eina 50 kílómetra svona í heildina. Þá áttaði sambýlismaðurinn sig á að við værum í bráðri lífshættu með mig dottandi undir stýri. Æ, hann er örugglega ekkert rosalega skotinn í mér í dag blessaður.
En fáeinar myndir frá elsku Kaupmannahöfn. Ég mæli eindregið með ferð þangað fyrir þá sem hafa ekki nú þegar farið. Hafið bara með ykkur nesti. Ég er ennþá með hjartslátt eftir að hafa keypt mér Gajolpakka á 500 krónur íslenskar.
Ég er yfir mig hrifin af þessum Essobol sem ég fann í einhverri túristabúð. Fólk sem ég hef rekist á eftir að ég kom heim hefur þó almennt ekki verið á sama máli. Ég skil það ekki. Hvað er ekki töff við alltof stóran bol merktan Esso? Það er ekkert Esso á Íslandi lengur. Þessi bolur er antík.
Dýrasti kaffibolli sem að ég hef drukkið. 1700 krónur. Sambýlismaðurinn þurfti skyndihjálp.
0,75 lítra bjórglös. Ég hlýt að vera Dani að einhverjum hluta.
Þetta eru föt á barnið. Að mestu leyti.
Dásamleg ferð að baki og lúnu beinin sem hrjá mig núna vel þess virði.
No comments:
Post a Comment