Klukkan var að ganga ellefu í morgun þegar ég gekk út úr síðasta prófinu mínu. Það var yfir 20 stiga hiti úti og eðlilegt fólk hefði líklega stigið gleðidans og baðað sig upp úr sólskini. Ég brunaði hinsvegar heim, dró fyrir alla glugga og fór að sofa. Þessi lúr var hreinn unaður.
Ég fagnaði próflokum að sjálfsögðu með naglalakkskaupum. Ég hef tekið ástfóstri við hvítu naglalakki undanfarið og var ekki lengi að liggja kylliflöt fyrir þessum ljósgráa lit. Ég keypti auðvitað ómyndaða rauðvínsflösku líka. Próflok og almenn bugun - ég á vel skilið rauðvínsglas. Eða glös.
Ég fékk svo sjúklega skemmtilega sendingu í dag.
Seglar með Instagram myndunum mínum á. Ótrúlega skemmtilegt og tekur sig prýðilega vel út á ljóta ísskápnum mínum.
Maður fær níu myndasegla fyrir tæpa 15 dollara - hingað komið. Ég pantaði þetta á sunnudaginn og þetta kom inn um lúgana í dag. Þið getið pantað ykkur svona hér.
Nýjasta þráhyggjan: jarðaber. Helst súkkulaðihjúpuð. Ég hef alltaf haft einstakt lag á því að gera hollan mat óhollan með einhverjum hætti. Ó, þetta er svo ljúffengt.
Húðvörur frá EGF í mini útgáfu. Ég elska svona mini útgáfur af snyrtivörum. Svo krúttlegar og gleðilegar fyrir augað. Ég hef notað húðdropana frá þeim með hléum mjög lengi en hef aldrei prófað andlitskremin. Ég er æsispennt að smyrja þeim yfir mitt skraufþurra og náhvíta prófljóta andlit.
Jæja, ég ætla að fara að njóta þess að horfa út í loftið og hugsa um nákvæmlega ekki neitt. Nema rauðvínsglasið mitt.
No comments:
Post a Comment