Við mæðginin rigguðum upp einu stykki jólatréi í gær. Þið fáið ekki að sjá það fyrr en ég er búin að taka allt skrautið af því og skreyta það aftur. Já. Ég er ömurleg móðir. Ég leyfi barninu að dunda sér við að skreytingar sem ég ríf svo niður þegar hann sér ekki til.
Afkvæmið sýndi því einmitt lítinn skilning að litaþemað á trénu ætti að vera fjólublátt. Hann virti allar slíkar reglur að vettugi og tróð á það kúlum í öllum regnbogans litum. Ég átti virkilega erfitt með að horfa á þessar hamfarir. Um leið og hann lokar augunum í kvöld verður tréð skreytt á nýjan leik. Ömurleg móðir, já ég er fullmeðvituð um það.
Deginum í dag eyddi ég meðal annars í jólamyndatökur. Það er voðalega skemmtilegt að mynda falleg börn. Sérstaklega þegar þau horfa öll í sitthvora áttina og virðast heyrnalaus með öllu.
Þessi litla dís bauð mér síðan í afmæli. Sjá þennan litla og mjúka kropp.
Engar áhyggjur - það klingir ekki. Ég úrskurðaði mína eggjastokka látna eftir að hafa komið afkvæminu í heiminn. Þeir eru ennþá steindauðir og hið svokallaða kling er eitthvað sem ég kannast ekki við og hendir mig aldrei. Ég mætti heldur ekki við því að eiga fleiri börn - ég vil alls ekki fleiri putta í kringum jólaskrautið mitt.
Ekki fór nú illa um mig í þessari ágætu afmælisveislu. Ég veit varla hvort mig langar hreinlega að deyja eða láta dæla upp úr mér. Ég er 28 ára og ég fer aldrei í veislur án þess að yfirgefa þær öðruvísi en líkamlega kvalin úr seddu og græðgi. Sjálfsagi já. Ég þarf að tileinka mér hann við tækifæri.
Eigið ljúft laugardagskvöld.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment