Dec 9, 2013

Bits and bobs.


 
Ó, sjáið mig hvíla bossann í milljón króna stól - eða svo gott sem. Mikið sem hann fer mér vel. Milljón já. Ekki einu sinni bíllinn minn + innbú nær slíkri upphæð. Líklega ekki hálfri milljón ef út í það er farið. Þetta voru þess vegna góðar mínútur fyrir fátækan námsmannsrass. Væntanlega voru þessar mínútur ljúfar fyrir Eggið hans Arne líka - enda afturendi minn mjög mjúkur og búsældarlegur.

Ég fékk óvænt boð á jólahlaðborð um daginn. Þar ákvað ég að safna forða fyrir komandi vetur. Þetta er eftirréttadiskurinn minn. Eftir fyrstu ferð. Þær voru fleiri. 

 
Ég hef eytt ómældum tíma í Lótushúsi undanfarið, bæði á fyrirlestrum og námskeiðum. Stundum er nauðsynlegt að hlúa að andlegu hliðinni. Ég þjáist af örlítilli neikvæðni, bara örlítilli - jú og er með fremur svarta sál að eigin mati þannig að þetta er mér bráðnauðsynlegt. Ég legg til að þið kynnið ykkur dagskrána þarna ef þið hafið tök á að mæta. 

Þetta er fremur eðlileg sjón hérna í Breiðholtinu. Ég að kyssa tölvuskjáinn. Ég er ekki geðveik né að kyssa myndir af David Beckham eins og ég gerði á árum áður. Nei. Afkvæmið er á skjánum og við þurfum alltaf að kyssast bless eftir afar langar samverustundir í gegnum Skype. 

 
Ég átti bugaða prófalesturspásu með systur minni á Gló í kvöld. Guð minn góður - af hverju hef ég ekki borðað þarna áður? Alveg gjörsamlega guðdómlegt. Það besta sem ég hef fengið lengi. Ekki skemmdi fyrir að fá matinn í hendurnar strax. Ég veit fátt erfiðara en að bíða eftir mat.

 Erfiðast finnst mér samt að deila mat - gefa með mér. Það finnst mér hrikalegt. Ég er svo matsár. Og sísvöng. Ég get ómögulega deilt mat. Aldrei biðja mig um smakk af einhverju. Aldrei! 

Ég sá þessa verulega sorglegu bók í Hagkaup um daginn. 365 dagar...með kettinum mínum kæra. Ég sá líf mitt skyndilega fyrir mér með ketti og engu öðru. Bara ég og köttur. Kötturinn og ég. 365 daga ársins. Það endar líklega þannig. Kona með svarta sál sem deilir ekki matarbita á sér varla viðreisnar von.

Jæja, síðasta fríkvöldið áður en ritgerðarskrif hefjast á nýjan leik. Á morgun segi ég ykkur kannski söguna af því þegar ég ruglaðist á augnfarðahreinsi og rótsterkum naglalakksleysi um helgina. Það var svolítið sárt og kostaði mig sirka tvo tíma af blindu. 

Já. Best ég eyði kvöldinu í að horfa á Elf. Hún er svo fjári hressandi.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment