Ég hef látið ófá vináttusambönd renna út í sandinn vegna þess að ég hef haldið að vinátta rækti sig sjálf. Ég hef látið hinn aðilann sjá um alla fyrirhöfnina sem endar síðan á að viðkomandi gefst upp. Eðlilega. Ég get ekki útskýrt þessa hegðun mína á neinn rökréttan hátt. Ég hef alltaf átt frekar auðvelt með að eignast vini og kynnast fólki en viðhald á vinskap - ekki alveg mín deild.
Stundum hef ég reynt að sannfæra mig um að ég sé of mikill einfari til þess eyða miklum tíma í félagsskap annarra. Sem er auðvitað bölvaður þvættingur sem ég hef notað til að breiða yfir eigin framtaksleysi.
Þegar ég flutti suður í haust mætti ég opnum örmum svo margra sem ég hélt ég hefði glatað. Glatað vegna minnar einskæru leti þegar kemur að samskiptum við fólk. Það var eins og enginn tími hefði liðið þó svo suma hefði ég vart hitt síðan í menntaskóla. Ég hef líka eignast nýtt fólk. Fólk sem ég ætla mér að passa upp á.
Þetta fólk mitt hefur reynst mér ákaflega vel á þessum undarlega tíma sem þetta ágæta haust hefur verið. Þó svo ég hafi nú eiginlega ekkert átt það skilið.
Að ógleymdum kjarnanum mínum fyrir austan. Þar á ég að sjálfsögðu fólk líka - sem ég hef meira að segja verið nokkuð dugleg við að hlúa að þrátt fyrir flutninga. Kannski að ég sé loksins að læra.
Annar galli við mig sem vin er sá að ég segi aldrei hversu mikið ég kann að meta fólk. Bara aldrei. Auðvitað hendi ég annað slagið ,,vá, hvað þú ert fín" í vinkonur mínar. Ég er nú ekki hjartalaus með öllu. Annað segi ég yfirleitt ekki. Tjái ekki væntumþykju eða neitt slíkt. Sem er undarlegt. Ég er alin upp við endalaus faðmlög og væntumþykja er eitthvað sem mér var ítrekað tjáð. Ég á samt eitthvað erfitt með þessa hluti. Einkum og sér í lagi þegar um vini míni er að ræða.
Faðma vini mína? Nei. Það væri saga til næsta bæjar. Nema við séum að ræða um einhver verulega sérstök tilefni. Já. Ég er kannski ekki eins og fólk er flest. Vinir mínir verða líka allir fremur vandræðalegir ef ég hyggst gerast eitthvað ástleitin. Svo mikið er það út úr karakter fyrir mig.
Ég er að vinna í þessu. Vinna í að vera betri vinur. Áður en árið 2014 rennur sitt skeið á enda verð ég faðmandi, hrósandi og kyssandi eins og vindurinn.
Passið upp á vini ykkar.
Heyrumst.
Ég er að followa billjón blogg á bloglovin en þú ert bara algjört uppáhalds. Svona í takt við þessar vináttuumræður þá finnst mér bara alveg tilvalið tækifæri að láta þig vita núna! Kv ein af þessum nafnlausu (ég heiti samt Marta) sem skoðar bloggið þitt. You go girl! (trúi ekki að ég hafi skrifað þetta...)(meina það samt mjög mikið)
ReplyDeleteHahahahaha. Dásemdarkomment! Takk fyrir að lesa! :)
Delete