Dec 12, 2013

Fimm hlutir á fimmtudegi.


Þetta var staðan á ísskápnum í Breiðholtinu fyrr í vikunni. Rétt áður en ég smellti af þessari mynd henti ég mjólkurfernu sem rann út þann 26.október síðastliðinn. Ég áttaði mig einmitt ekkert á aldri hennar fyrr en ég ætlaði að smella mjólkurdreitil út í kaffið mitt og fyllti það af illa lyktandi mjólkurkögglum. 

Ah, þá mundi ég nú eftir því að sennilega hef ég bara keypt eina mjólkurfernu síðan ég flutti inn. Um miðjan október já. Því miður rekur mig samt minni til þess að hafa drukkið mjólk út í kaffið mitt í lok nóvember. Þannig að ég hef líklega neytt talsvert meira af þessari háöldruðu fernu en ég kæri mig um að vita.

Eitt af áramótaheitunum er að elda og borða heima hjá mér. Ekki í Ikea. Heima hjá mér!


Þó ég sé yfirleitt alltaf matarlaus þá heyrir það til tíðinda ef Breiðholtið er sælgætislaust með öllu. Hafið þið smakkað þetta súkkulaði? Hvílíkur unaður. Bráðnar uppi í manni. Það eru svona litlar loftbólur í því og almáttugur - að leyfa því að leysast upp á tungunni. Amen og hallelúja. 


Að pakka niður fyrir jól austur á landi gengur bölvanlega. Ég er auðvitað slakasti pakkari sem til er. Ég þyrfti helst að hafa cargo flugvél á mínum snærum. Hver þarf átta yfirhafnir og fjórtán skópör fyrir jólahald á Austurlandi? Eða bölvuð naglalökkin - ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur hversu mörg eru komin ofan í tösku. Við skulum orða það þannig að ég gæti mögulega naglalakkað alla á Reyðarfirði. Í sitthvorum litnum. 


Þetta fann ég í MegaStore í Smáralind í gær. Kerti sem ilmar eins og candy cane. Það er svo ótrúlega góð lykt af þessu. Mmm, hver vill ekki að húsið sitt lykti eins og piparmyntustafur? Við í Breiðholtinu sláum allavega ekki höndinni á móti slíku. 


Í dag ferðaðist ég langa vegalengd með tveimur fullvaxta karlmönnum. Ég vissi vart hvort ég væri stödd í búningsklefa eða saumaklúbb því umræður þeirra fóru frá ensku meistaradeildinni yfir í hvernig best væri að marínera kjúkling. Ég tók því þá ákvörðun að halla mér aðeins. Meiri mistökin sem það voru. Þeir stöðvuðu bílinn á meðan ég svaf og tóku vægast sagt viðbjóðslegar myndir af mér. Í augnablikinu sit ég þess vegna undir fjárkúgun og hvers kyns hótunum um birtingu á þessum myndum. 

Jæja. Fimmtudagur. Rauðvínsglas.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment