Ég er ekki alltaf með súkkulaðislefu í munnvikinu. Það kemur fyrir að ég borði eitthvað sem mögulega telst í hollari kantinum. Slíkt á sér aðallega stað þegar ég er með samviskubit. Átsamviskubit svokallað. Ég hef lítið fundið fyrir hungri síðan ég kom austur og öll jólin eftir. Það er því sennilega fyrir bestu að taka því rólega þangað til klukkur hringja inn jól - nema að ég ætli að láta cargo flugvél sjá um flutninginn á mér suður.
Afkvæmið biður stundum um eitthvað sem hann kallar kósýpartý. Í því fyrirbæri felst yfirleitt sælgætisát, sófalega og sjónvarpsgláp. Ég bar þessar veitingar á borð fyrir hann í dag þegar við ætluðum að eiga slíka stund saman.
Viðbrögðin við veitingunum voru miður falleg.
Mér fannst hann bara hreint ekki eiga skilið sælgæti í þessu ágæta kósýpartýi okkar. Ég varð undarlega lítið vör við hann í einhverjar 20 mínútur í morgun. Ég fór því á stúfana og sá glitta í hann í ferlega leynilegum framkvæmdum undir rúmi hjá sér.
Ég dró hann undan rúminu ásamt tómu dagatalinu hans. Hann horfði á mig, með súkkulaði út að eyrum og sagði: ,,ég gerði þetta sko ekki!"
Ég tek hann í kennslu í trúverðugum lygum fljótlega.
Þrátt fyrir þessi skakkaföll eyddum við nú deginum að mestu leyti í kósýpartýi. Við flatmöguðum í sófanum, vafin inn í sængur og horfðum á þessa dásamlegu mynd. Hún er ein af mínum uppáhalds.
Voðalega notalegur laugardagur.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment