Mig hefur alltaf langað til þess að smakka þennan verulega ameríska jólasjúss - eggnog eða eggjapúns eins og við myndum líklega kalla það.
Eggjapúns.
4 egg
90 grömm sykur
315 millilítrar heit mjólk
125 millilítrar viskí
125 millilítrar rjómi
Múskat
Aðskiljið hvíturnar og rauðurnar. Þeytið rauðurnar ásamt sykrinum þangað til blandan verður létt og ljós. Notist við skál sem þolir hita.
Hellið heitri mjólkinni saman við og hrærið vel saman.
Látið vatn sjóða í stórum potti (sem skálin kemst fyrir ofan á). Þegar suðan er komin upp lækkið þá undir en samt þannig að suðan haldist. Skálin er sett yfir vatnið og hrært varlega í með trésleif í 5-10 mínútur.
Þegar eggjablandan hefur þykknað og er farin að loða við skeiðina er skálin tekin af hitanum.
Eggjablöndunni er leyft að kólna alveg. Eftir það fer viskíið saman við.
Þeytið rjómann og eggjahvíturnar í sitthvoru lagi. Hrærið helminginn af rjómanum og helminginn af eggjahvítunum varlega saman við eggjablönduna. Þegar það er orðið vel blandað saman fer afgangurinn út í.
Að lokum má hella sér vænni skvettu í fallegt glas og dusta örlitlu múskati yfir.
Þetta er virkilega, virkilega gott. Já alveg virkilega!
Ég mæli svo sannarlega með því að þið prófið.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment