Lífið síðustu vikuna hefur snúist um matarboð, kaffiboð og kökuboð - já, almennt bara boð sem fela í sér át og gleði. Jólin eru ekki einu sinni komin og buxurnar hafa þrengst og andlitið orðið búlduleitara. Ég er ein af þeim sem þarf að ganga í joggingbuxum fram í miðjan janúar. Ég held að metið mitt sé að vakna fimm jólakílóum þyngri daginn eftir nýársdag.
Ég kýs að líta á það sem forréttindi að hafa þann möguleika að bæta á sig fimm kílóum yfir jól og áramót.
Það eru ekki allir jafn lánsamir.
Þessi ágæti moli á nú yfirleitt sök á einu kílói eða svo, bleiki makkintossmolinn. Ég ryksuga þessa dásemd í mig upp úr hverjum einasta dunki sem ég kemst í.
Mér þykir afar vænt um að afkvæmi mitt hefur tekið ástfóstri við rauða molanum með jarðaberjaslepjunni. Sem enginn vill. Það myndi reynast mér ákaflega erfitt að þurfa að berjast við hann um þessa mola. Nóg er nú að standa í stóra jólatrésmálinu. Já því er ekki lokið. Leyfi ykkur að heyra frekari fregnir af því síðar.
Ég bakaði þristatoppa í gær. Sem er kannski ekki frásögum færandi nema að ég borgaði 1200 krónur fyrir þennan poka af þristum úr nammibar Krónunnar. Það þurfti næstum að bera mig á sjúkrabörum út úr versluninni. Sem og það verða bara þristar í jólamatinn í ár.
Já þessi þristatoppar urðu einhverjum númerum of stórir. Enda hef ég svo sem aldrei verið þekkt fyrir fíngert handverk. Ég set líka alltof mikið súkkulaði í þá af því ég borða ekki toppana sjálfa. Hins vegar veit ég fátt betra en að borða súkkulaðið sem rennur út úr þeim og á plötuna. Mmm.
Meiri matur já. Ostafylltar brauðstangir úr Söluskálanum á Egilsstöðum. Það er í alvöru ekkert betra. Ekkert. Skemmtilegt að þegar ég var í menntaskóla þá kostuðu þær einhvern 700 kall. Í dag kosta þær næstum 1700 kall. Dásamleg þróun. En þær eru þó alltaf þess virði. Ó, svo vel þess virði.
Mögulega ætti ég að íhuga að hætta að borða drasl og fara að borða vítamín. Ég er illa marin á höndinni í augnablikinu. Eftir hvað? Já ég var bara að banka. Svona eins og fólk gerir þegar það fer í heimsókn. Ekkert óeðlilegt að uppskera flennistóran marblett eftir slíkar framkvæmdir, er það?
Jæja.
Við heyrumst fljótlega.
Bleiki molinn er svo mikið bestur!
ReplyDeleteAlmáttugur, já!
Delete