Ég fann þennan dag læðast upp að mér um leið og ég steig á lappir í morgun. Einn af þessum dögum þar sem ég ætti sennilega best heima í umsjá einhverskonar fagaðila.
Ég á það stundum til að troða tilfinningum mínum bara í vasann. Til þess að geyma þær aðeins. Síðan fyllist vasinn - alveg óvænt. Alveg merkilegt fyrirbæri. Þá upplifi ég dag eins og í dag. Þetta er mun verra þegar ég er svona án afkvæmisins. Þá er ég ýtandi allskonar tilfinningum frá mér í sífellu.
Dagurinn hófst á því að ég opnaði eldhússkápinn minn og sá að það var ekki til hnetusmjör í húsinu. Hafragrautur án hnetusmjörs er auðvitað eins og föstudagur án rauðvíns. Ekki ekki til í mínum bókum. Áður en ég vissi af fann ég mig skælandi fyrir framan eldhússkápinn. Yfir hnetusmjörsleysi.
Jæja. Mér tekst að taka mig örlítið saman í andlitinu, laga kaffi og íhuga hversu stórundarlega ég get stundum hagað mér. Ég næ nú ekki einu sinni að hugsa þá hugsun til enda þegar ég er byrjuð aftur. Þarna sit ég í góðan hálftíma vælandi maskarann ofan í kaffið mitt og þurrkandi hori í sloppinn minn. Til þess að bæta gráu ofan á svart hringir síminn skyndilega. Á línunni var hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum sem tilkynnir mér að ég sé orðin efst á biðlista eftir ákveðinni aðgerð og að skurðlæknir muni hafa sambandi við mig um hádegi.
Ég er búin að vera á bölvuðum biðlista síðan 2011. Í dag. Af öllum dögum. Auðvitað.
Andlegt ástand mitt þennan þriðjudaginn mátti svo sannarlega ekki við tilhugsun um skurðaðgerð. Læknirinn hringdi stuttu seinna og hann hefur að öllum líkindum efast verulega um geðheilsu mína. Nú eða að hann hafi grunað að ég væri nýskriðin heim af Monte Carlo eða Mónakó. Ég vældi bara í símann og sagði honum að ég gæti ekki hugsað mér að láta taka úr mér líffæri að svo stöddu. ,,Ég get ekki hugsað mér að láta taka úr mér líffæri að svo stöddu." Já, ég sagði þessa setningu. Hér um ræðir lítið líffæri sem er mér ónothæft og aðgerðin mjög smávægileg.
Dramatíkin var slík að að ég lét eins og um gríðarlega mikilvægt líffæri væri að ræða og aðgerðin á stærð við hjartaígræðslu. Einhversstaðar inn á milli ekkasoganna náði ég að sannfæra lækninn um að ég gæti ómögulega tekist á við þessa aðgerð núna af því að ég byggi ein og það væri enginn til að strjúka á mér hárið, gefa mér súpu eða þvo fötin mín. Ég var örugglega með óráði. Buguð af tilfinningum sem ég kunni engin skil á. Mér finnst notalegt að búa ein. Fikta í mínu eigin hári, borða vondar viðbrenndar súpur og ég set aldrei í þvottavél fyrr en ég stend ráðalaus á brókinni.
Nei, ég veit ekki hvað vesalings maðurinn hefur haldið. Háskælandi kona í símanum, síröflandi um að hún hefði engan til að strjúka á sér hárið. Mögulega sú fyrsta sem neitar að mæta í skurðaðgerð á þeim forsendum. Ég veit ekki.
Næst á dagskrá var að kveðja lykilmanneskju í mínu lífi sem er að yfirgefa höfuðborgina fram á haust. Ég hélt andlitinu á meðan ég faðmaði hana, stökk svo út í bíl, grenjaði alla Miklubrautina og gott betur en það. Hún er samt bara á leiðinni heim á Eskifjörð. Vælið í mér var hinsvegar eins og hún hefði verið valin til þátttöku á The Hunger Games.
Mér fannst svo þrusugóð hugmynd að smella mér í World Class seinnipartinn - hressa mig aðeins við. Þar entist ég í 10 mínútur af því ég grenjaði bara á hlaupabrettinu og konan við hliðina á mér var við það að fara að faðma mig. Ég veit ekkert af hverju ég var að grenja þar. Nei. Ég bara grét.
Eftir World Class varð ég að fara í Bónus því það var til bara ein tómatsósuflaska í Breiðholtinu og ekkert hnetusmjör! Þar fór ég að skæla í grænmetiskælinum. Æh, ég sá svo falleg mæðgin. Það voru líka ekki til gulrætur og það sló mig alveg út af laginu.
Ég keyrði heim úr Bónus. Heyrði eitthvað lag í útvarpinu og sat volandi á rauðu ljósi öðrum ökumönnum til undrunar og yndisauka.
Þegar heim var komið var ég búin á sál og líkama. Sofnaði í tvo tíma og er eins og ný manneskja. Andlitið á mér lítur reyndar út eins og það hafi orðið fyrir slæmri geitungaárás og vökvabúskapur líkamans er tæpur.
Stundum bera tilfinningar mann ofurliði. Ég þarf kannski að tileinka mér að takast á við þær jafnóðum. Ekki á sex mánaða fresti með ofangreindum afleiðingum.
Heyrumst.
Það eiga allir svona daga, þetta er lífsnauðsynleg útrás - tilfinningadetox af bestu gerð. Nauðsynlegt að tappa af tárageyminum til að geta byrjað á nýjum upphafspunkti, með tandurhreint system og óralangt í næsta grenjukast.
ReplyDeleteLitríkustu og skemmtilegustu karakterarnir taka allir svona tilfinningaflóðbylgjur endrum og eins, þetta er mikill hæfileiki að mínu mati. Miklu betra og heilbrigðara en að vera eintómt flatlendi með tiltinningalíf í pastellitaskalanum. Þetta ,,jafnvægi" er hvort sem er bara mýta :) Vona að þú verðlaunir þig fyrir alla hreinsunina með veglegum skammti af hnetusmjöri, helst ofan á suðusúkkulaðimolum, það er best. Takk fyrir góð, hreinskilin og falleg skrif.
Það að þú sért að skrifa um daginn þinn á fyndinn og einlægann hátt, segir allt um það hvort þú sért klikkuð eða ekki. Svo ekki hafa áhyggjur af því.
ReplyDeleteÉg bý líka ein og hver leggur í aðgerð með enga aðstoð?!
Styð samt áætlanir þínar að vera betri í að tækla dramað jafn óðum svo það verði ekki full on cray cray þegar þú opnar fyrir :)
....en umfram allt, ekki vera hörð við sjálfa þig, þú virkar ekki sem neitt fórnarlamb (allra heldur sterk og fyndin og klár <- öfundsverðir eiginleikar.)
Og farðu svo að horfa á Oliviu Pope og félaga, það bætir og kætir, lofa.
knús frá DK
Heiðdís
Mikið sem ég dái það hvað bloggið þitt er einlægt og einstakt. Ég held að svona erfiðir dagar sem tæma tárakirtlana einkenni frekast til fólk sem er harduglegt og ætlar að harka af sér í lengstu lög. Smá dramatík endrum og eins er bara til að krydda lífið:)
ReplyDeleteKnúsaðu þig svolítið og mundu svo að kaupa ALLTAF 2 hnetusmjörsdollur þegar þú ferð í bónus!
Ég þekki svona daga! Reyndar ekki með grátinum - en ómöguleysið. Knús og hamingja frá mér!
ReplyDeleteÉg er nokkuð viss um að þú sért eina manneskjan sem getur skrifað svona innlega um erfiðan dag, en samt haft það skemmtilegt :)
ReplyDeleteHættu að safna í vasann.. það gerir allt miklu auðveldara :)
Æji knús!
ReplyDelete-Heba