Feb 16, 2014

100 dagar af hamingju - bless og takk.

Já ég er hætt. Fari þessir 100 hamingjudagar norður og niður. Mér fannst ég bara vera undir virkilegu álagi alla þessa fimm daga sem ég leitaði hamingjunnar. Þetta er yfirborðskennt og kjánalegt. Ég vil frekar halda áfram að vera ég. Neikvæð, svört og sótbölvandi daginn út og inn. 

Allt í lagi. Ég er ekkert dauð að innan. Ég sé bara enga hamingju í hlutum eins og brauðsneið með osti og kaffibolla. Eða í því að sólin sé farin að skína. Brauðsneið með osti er bara já, andskotans brauðsneið með osti og sólin er svo lágt á lofti að ég er í bráðri lífshættu í hvert skipti sem ég sest undir stýri. 

Æ, þetta er slæmur dagur til þess að ræða þetta. Ég dáist alveg að ykkur sem nennið þessu. Gubba yfir sumu en annað sleppur. Ég er ekki týpan í þetta. Það vissum við öll frá upphafi.


Þessi bölvaði sunnudagur hófst á kveðjustund. Kannski eruð þið orðin leið á að lesa vælið í mér yfir söknuði í garð afkvæmisins. Ég veit ekki. En þetta blogg er um líf mitt og þessi hryllilegi söknuður litar það að ákaflega miklu leyti. Þannig að áfram ætla ég að skæla. 

Ég hef sjaldan átt eins erfiða stund eins og hérna í morgun. Elsku litla barnið mitt hélt dauðahaldi um hálsinn á mér og grét. Eins mikið og ég tók á öllu sem ég átti þá gat ég ekki verið sterk og róað hann. Nei. Ég hélt bara dauðahaldi um litla hálsinn hans og grét alveg jafnmikið.

 Úff, núna er ég farin að gráta aftur og ég sem var að setja á mig maskara. Jæja. 

Þessi fjarlægð á milli okkar hefur náð sínum þolmörkum og gott betur en það. Kveðjustundirnar verða erfiðari með hverju skiptinu. Ég get varla lengur notið tímans með honum af því um leið og ég hitti hann myndast bara stór köggull í hálsinum á mér sem bíður eftir kveðjustund. Ég fæ meira að segja væg kvíðaköst inn á milli og á stundum erfitt með andadrátt. Ég sef heldur ekki þegar ég er í kringum hann. Mér finnst það algjör tímaeyðsla þegar ég get frekar legið og horft bara á hann sofa. 

Ég ætla ekki einu sinni að segja ykkur klukkan hvað var farið í bólið þessa daga sem hann var hérna. Nei. Hann yrði sennilega tekinn af mér. Ég hreinlega tímdi ekki að leyfa honum að fara að sofa. Ég vildi bara hafa hann vakandi. Hjá mér. Horfa á hann. Tala við hann. Njóta nærveru hans til hins ítrasta.

Þegar ég kom heim af flugvellinum í morgun byrjaði ég á því að rífa allt utan af rúminu. Alveg á ljóshraða. Ég gat ómögulega tekist á við það að leggjast upp í rúm og finna lyktina af honum í rúmfötunum. Jájá. Dramatíkin er slík að það er eins og ég sé að gráta dáinn kærasta. 

Blessunarlega er afkvæmið ekki jafn brothætt og móðir sín. Hann á erfitt með kveðjustundirnar en unir nokkuð sáttur við sitt þess á milli. Honum líður vel þar sem hann er og það er svo sannarlega vel hugsað um hann. Það er fyrir mestu. Ég verð að muna að þessar aðstæður eru tímabundnar. Einn dagur í einu. Þá hlýt ég að hafa þetta af. Eða verð að hafa þetta af. Ég hef lítið val. 



Á svona ömurlegum dögum er þó yfirleitt ljós í myrkrinu. Slíkt ljós getur til dæmis verið góð vinkona sem tekur það ekki í mál að maður liggi skælandi heima í Breiðholti. Nánast ýtir manni inn í sturtuna og dregur mann síðan öfugan út. Á meðan útstáelsi stendur er manni síðan boðið upp á máttugasta meðal veraldar.
Hamborgara og franskar. 

Annað ljós í myrkrinu var að í gærkvöldi kom ég auga á að það er að hefjast krónutilboð fyrir börn hjá Flugfélagi Íslands. Máttur Facebook gerði það að verkum að yndisleg fjölskylda var svo væn að bóka afkvæmi mitt með sér suður á heila eina krónu eftir aðeins 11 daga. 

Ég borgaði nota bene vel yfir 20 þúsund krónur fyrir hann hingað um helgina og sá ekki fram á að það yrði endurtekið neitt alveg á næstunni. 

Bara 11 dagar.
Þannig að ég er hætt að skæla í bili.

Gleði og hamingja. Eða svona allt að því.

Heyrumst.

9 comments:

  1. Æji, finn til með þér...

    Ég er líka byrjuð á þessu 100happydays rugli og ég sé ekki fram á að þetta endist, þriðjungur úr ári!

    Yndislegt blogg

    B.kv.
    Ástríður

    ReplyDelete
  2. Guðrún vil bara segja að þú ert ótrúlega sterk að meika að hafa barnið þitt á öðrum stað en þú.. Ég er sko ekki svona sterk! Þannig að þú mátt sko alveg gráta og þú mátt sko alveg vera væmin og allur skalinn. Haltu áfram svona bloggi þú ert yndisgull <3

    ReplyDelete
  3. æhj ég fór að gráta.. þú ert ótrúleg að geta skilið svona við hann! það geta þetta ekki allir.

    ReplyDelete
  4. Fékk smá panikk móment, sá yfirskriftina og hélt smástund þú værir að kveðja bloggið, ekki bara þessa Secret/EatPrayShit/hamingju áskorun...
    Hjúkk segi ég bara!
    Þú ert hvort eð er fyndnari í tuðinu sem og Bridget Jones mómentunum :)

    Aðdáun áttu hins vegar skilið, fyrir að vera svona góður foreldri og gera það sem margir margir geta ekki (hvort sem það er neysluástand, eigingirni, skilnaðarrifrildi, allskonar!) og það er að setja barnið þitt í fyrsta sæti, þrátt fyrir að það sé ekki óskastaða þín og söknuður eflaust mikill, en að láta hag hans og þarfir koma fyrst, það krefst meira en flestir gera sér grein fyrir - dugleg ertu sannarlega.

    Settu eitthvað væmið á fóninn og skelltu á þig nýju naglalakki, það veitir manni korters hamingju (þessi hamborgari lúkkar líka mjöög vel.)

    xx frá DK
    Heiðdís

    ReplyDelete
  5. okei ég fékk sting í hjartað og fylgjuna þegar ég las þetta. og mér fannst þetta með rúmfötin sko ekkert dramó.
    mér finnst þú hrottalega dugleg!

    annars er ég ógeðslega fegin að fólk sé farið að hellast úr lestinni í þessari ömurlega leiðinlegu 100happydays yfirborðskeppni. jesús. get ekki einu sinni byrjað að tala um það hvað ég nenni ekki að sjá allar þessar myndir. ég held að fólk fatti líka ekki að þetta eru sko HUNDRAÐ dagar. það er bara lok maí/byrjun júní. mér fallast hendur.

    ReplyDelete
  6. Úff mig langar bara að gráta með þér. Þú ert svo dugleg og mátt tala eins og þú vilt um söknuð á litla gaurnum þínum. Við skiljum þig allar/öll með tölu.. og við sem eigum börn grenjum með þér :-)

    Og maður sér vel á bloggunum þínum hvað þú ert góð og skemmtileg mamma! Þið eruð heppin að eiga hvort annað :-)

    Knús!

    Kv. Helga

    ReplyDelete
  7. Ég er sérlega kát að vera ekki eini fýlupúkinn! Screw this 100 happy days, ég dey úr óhamingju ef ég fæ ekki að vera í fýlu amk einu sinni í viku! Ég græt með þér yfir aðskilnaðinum! Kveðjur - Lísa

    ReplyDelete
  8. Vá hvað ég elska að e-r sé a hugsa það sama og ég... ég hef ekki þorað að segja það upphátt en þessir 100 hamingjudagar eru að ganga frá mér... allir að pósta e-u krappi á facebook og bloggin sín haha... glætan að þetta sé að gera fólk í alvöru hamingjusamt! :)
    -Svana Lovísa

    ReplyDelete