Mar 6, 2014

Bróðir minn.


Þetta er litli bróðir minn. Hann á afmæli í dag. 

Ég hef eytt mörgum dögum af ævi minni í að hata hann heitt og innilega. Hann er orsök þess að ég var ofbeldishneigður, orðljótur og sísvangur unglingur. Það er leitun að leiðinlegri krakka en hann var í æsku. Almáttugur. 

Það sem við gátum slegist - maður lifandi. Einu sinni notaði ég einmitt ryksugu sem vopn. Tók þetta þarna framan á henni - járnstykkið sem maður heldur í til að brúka tækið og lamdi hann bara. Það sást sko á ryksugunni að barsmíðum loknum. Járnið bara bognaði. Ekki eina skiptið sem ég hef lúskrað duglega á honum. Já, ég hefði kannski best verið geymd á hæli á tímabili. Hann kunni bara á alla mína takka og notaði þá óspart. 

Djöfull sem hann gat smjattað hátt og borðað mikið. Matmálstímar voru iðulega eins og heimstyrjöld. Við rifumst heiftarlega um hvern matarbita. Það var alveg nóg af mat sko, við kepptumst bara um að fá sem mest. Hökkuðum í okkur eins og munaðarleysingjar þangað til ekkert var eftir á borðinu. Borðuðum hratt og vel. Það skal engan undra að ég hafi verið 50 kílóum of þung á tímabili. 

Enn þann dag í dag borða ég á ljóshraða. Óþolandi eiginleiki sem bróðir minn hefur innrætt mér. Ég er líka alltaf hrædd um að fá ekki nóg af borða - útskýrir maníska matarsöfnun sem ég stunda af kappi. Einnig bróður mínum að kenna. 

Í dag er hann hættur að vera pirrandi. Eða svo gott sem. Svona fyrir utan þær áhyggjur sem hann virðist hafa af hjúskaparstöðu minni. Hann reynir ítrekað að koma mér út til skólafélaga sinna sem margir hverjir hafa ekki tekið út kynþroska. Pot og vinbeiðnir á Facebook frá undarlegum unglingspiltum skrifa ég alfarið á hann.

Hann er mín stoð og karlkyns stytta í augnablikinu. Alltaf boðinn og búinn að aðstoða seinheppnu systur sína í öllum þeim aðstæðum sem hún lendir í. Eitt símtal og hann er kominn. Þessi elska. 

Ég get ekki sagt að ég eigi það inni. Mikið sem ég gat lamið hann. Fari það grábölvað, hann var svo leiðinlegur krakki. Það þarf bara að taka þá annað slagið í karphúsið. Bráðnauðsynlegt. 

Hann hefur fallegt hjarta og er hrikalega fyndinn. 

Til hamingju með daginn þinn Ísak minn. 

2 comments:

  1. Ég frussaði pínulítið yfir skjáinn, þetta er besta afmæliskveðja sem ég hef lesið.

    ReplyDelete
  2. Hahahaha..sammála, alveg eðal afmæliskveðja!!
    Ég var líka drepleiðinleg við systir mína, lamdi hana samt aldrei held ég en orðin sem ég notaði höfðu áhrif...já og hringhvolf augnanna haha.

    ReplyDelete