Mar 4, 2014

Heilsunammi.

Nei, ekki örvænta. Ég er ekki að fara að gefa ykkur uppskrift af einhverju stórundarlegu heilsunammi sem ég galdraði fram úr erminni hérna í Breiðholtinu. Þvert á móti. Þetta heilsunammi getið þið keypt út í búð.


Í síðustu viku áskotnaðist mér fullur poki af hvers kyns heilsugúmmelaði úr 10-11. Ég er svo ferlega ginnkeypt fyrir öllu sem orðinu heilsa er smurt á. 

Höfum eitt á hreinu áður en lengra er haldið. Ég hef ekki verið þekkt fyrir það að liggja á skoðunum mínum. Mér og öðrum ósjaldan til ama. Þess vegna færi ég aldrei að mæla með einu eða neinu nema að mér líkaði það sjálf.
Allt í lagi?

Þá er það frá.

Í pokanum kenndi ýmissa grasa. Hnetu og ávaxtablöndur, súkklaðihjúpaðar baunir og hrískökur í allskonar útgáfum. Allt svona líka ljómandi gott. Mér finnst samt eiginlega allt gott. Nema uppstúfur. Kannski saltkjöt. Jú og gellur. Oj bara. 


Í pokanum var þó tvennt sem stóð upp úr. Fyrst og fremst voru það súkkulaðihjúpaðar edamame baunir. Guð minn almáttugur. Eins og þið sjáið á myndinni er pakkinn galtómur. Hann lifði ekki einu sinni af bílferðina heim. Nei. Um leið og pakkinn var opnaður réð ég ekki við hendurnar á mér. Þær bara týndu upp í mig hverja helvítis baunina á fætur annarri.

Ég er búin að fjárfesta í öðrum svona pakka síðan. Eða tveim. Einn borðaði ég með rauðvínsglasi. Það var blanda sem vel má deyja fyrir. 


Síðast en ekki síst, wasabi baunir. Ég hakkaði þær í mig þangað til nefhárin á mér byrjuðu að sviðna. Tárin láku úr augunum á mér og horið niður í munn. Samt var engin leið að hætta. Þær voru einnig prófaðar með rauðvínsglasi. Já, fjári fín blanda það. 

Ég ætla að leyfa mér að mæla með því að þið horfið eftir þessum vörum næst þegar þið stökkvið inn í 10-11. Þær eru á mannsæmandi verði og svona líka ljómandi góðar.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment