May 10, 2014

Heimsins bestu pönnukökur.



Ég framkvæmdi þessa beikonpönnukökutilraun í morgun. Guð minn almáttugur sko. 
Hvílíkur unaður. Unaður segi ég.

Ókei - kransæðarnar í mér grétu en ég er nú svo sem ekki vön að taka mikið tillit til þeirra. Fer ekkert að byrja á því núna. 


Beikonpönnukökur: 

4 desilítrar hveiti
3 teskeiðar lyftiduft
1 teskeið salt
2 matskeiðar sykur 
4 matskeiðar olía
2 og 1/2 desilítri mjólk
2 egg

Beikon

Öll þurrefnin eru mæld saman í skál. Olíu, mjólk og eggjum bætt við. Hrært þangað til mixtúran er kekkjalaus og fín.

Ég ætlaði að sjálfsögðu að fara mun auðveldari leið í þessum bakstri og kaupa pönnukökumix í flösku. En ég er stödd í mínum ástkæru heimahögum fyrir austan og þar var slíkur munaður ekki fáanlegur í morgun.


Deigið klárt.



Steikið beikonið létt báðum megin.


Sullið deigi yfir eina beikonsneið í senn. Þetta má alveg vera ólögulegt. Það er öllum sama. Þegar beikon er aðalinnhaldið þá skiptir útlit engu máli. Ekki nokkru einasta.



Ó, ljúffeng beikonfitan mallar saman við deigið og gerir bragðið af pönnukökunum betra en kynlíf í fullu baðkari af rauðvíni. 


Smellum smjörklípu og sýrópi yfir. Kveðjum kransæðarnar og góða hjartaheilsu.



Það besta sem hefur farið inn fyrir mínar varir lengi. 

Eigið ljómandi gott kvöld mín kæru.

Heyrumst.

1 comment:

  1. ein beikonpönnukökusneiðin minnti mig á dömubindi!

    ReplyDelete