Jun 10, 2014

Brjálæðislega einföld Oreo-ostakaka.


Óbilandi ást mín á Oreokexi er nú á flestra vitorði. Það eru ávallt til að minnsta kosti tveir kassar af þessum munaði hérna í Breiðholtinu. Stundum má finna þann þriðja á náttborðinu mínu. Æ, það er önnur saga. Mér er yfirleitt ekki viðbjargandi - sísvöng sama hvað klukkan er. 

En já, ostakakan.

Þrjú innihaldsefni af því við nennum engum veseni:

Sirka 1 og 1/2 kassi Oreokex
Dós af niðursoðinni mjólk - condensed milk heitir það víst
250 grömm rjómaostur



Condensed milk - mér skilst að þetta fyrirbæri fáist í Kosti, Hagkaupum og einhverjum Nóatúnsbúðum. Örugglega víðar.

 Ég nældi mér í þessa í asísku búðinni á móti Hlemmi. Eða er hún kínversk? Nei, ég veit það ekki. Ég skil ekki einu sinni hvað stendur á dósinni. Veit varla hvort ég var að brúka réttan hlut. En þetta var gott á bragðið. Það nægir. 


Byrjum á því að mölva 16 stykki Oreo.



Fínt að skella kexinu í poka og lúskra á þeim með kökukefli. Slíkt verkfæri er reyndar ekki til í Breiðholtinu. Hnetusmjör er hinsvegar alltaf til og vel hægt að nota það til að brjóta fáeinar kexkökur.


Æ, ókei. Það fóru bara 14 Oreokex í pokann hjá mér. Tvö ofan í maga.


Setjum mulninginn í litlar krukkur eða álíka ílát. Þessi uppskrift ætti að duga í sirka fjórar slíkar.



Hrærum rjómaostinn og dósamjólkina vel saman.


Myljið 4-5 kexkökur saman við.


Mixtúran fer ofan í krukkurnar og inn í ísskáp í góðar 30 mínútur.


Aðeins meira Oreo til skrauts og ein teskeið af mjólkinni yfir.


Ofboðslega gott. 

Nánast eins og mök við bragðlaukana. Eða eitthvað. Þið skiljið hvað ég á við.

Heyrumst.

No comments:

Post a Comment