Jun 9, 2014

Sjö ára.


Þessi litli molasykur er sjö ára í dag. Það fylgir því afar óþægilegur stingur að vera ekki hjá honum í augnablikinu. Elsku litli karlinn minn. Við héldum þó veislu honum til heiðurs áður en ég yfirgaf Austurlandið í síðustu viku. 


Það var einmitt langt liðið á veisluna þegar hann pikkaði í mig og sagði: ,,uu, mamma - varstu eitthvað búin að finna þessar buxur sem ég átti að fara í?" Jájá, móðir ársins. Alla daga, alltaf. 



Æh, hann er svo vel gerður. Yndislega saklaus sál með fallegasta og hlýjasta hjartalag sem ég veit um. Það hefur hann frá pabba sínum. Slíkt hefur varla gengið í erfðir frá ísdrottningunni sem móðir hans er. 


Flestum er ykkur kunnugt að við búum ekki saman í augnablikinu. Ég fór nokkuð vel yfir þau mál hérna. Ég hef svo oft skrifað um hvað þetta séu ömurlegar og erfiðar aðstæður. 

Þó hafa þær að vísu verið næstum þolanlegar síðustu mánuði. Það hefur nefnilega tekist að hafa bara fáeina daga á milli þess sem við hittumst. Eins vitum við alltaf hvenær við sjáumst næst. Niðurtalningin virðist veita okkur báðum einhverskonar sálarró. 

Uppáhalds einstaklingurinn minn í öllu heiminum. Sá eini sem fær hjarta mitt til þess að slá hraðar og stundum nánast springa. 

Jæja, ég ætla að hringja í hann í sjöunda skiptið í dag.

Heyrumst.

1 comment:

  1. til hamingju með flotta strákinn þinn, fyndna og sæta :)
    xx H

    ReplyDelete