Jæja. Hó, hó, hó og allt það. Ég er búin að rusla upp öllu jólaskrauti sem ég á til. Dansa við Léttbylgjuna allan daginn. Og langar ekkert meira en að púsla saman jólatrénu. Ég ætla þó að sitja á mér í fáeina daga í viðbót. Bara svo afkvæmið fari ekki að tuða um það í skólanum að mamma hans sé búin að skreyta jólatréð. Kjaftaskurinn sem hann er.
Popp dagsins er með jólalegu ívafi. Eins og sennilega allar poppuppskriftir á næstunni. Eða svona fram í miðjan desember. Þegar ég verð orðin grautleið á öllu sem við kemur jólunum. Af því ég byrja alltaf alltof snemma.
Jólapopp:
Tæplega 1/2 poki Stjörnupopp
Fáeinar piparkökur
2 stykki Nizza með piparkökum
Dreifum vel úr poppinu í eldfast mót.
Myljum piparkökurnar yfir.
Söxum hálft Nizzastykki og hrærum saman við popp- og piparkökublönduna.
Bræðum restina.
Skvettum súkkulaðinu yfir herlegheitin. Ah, sleikja svo skálina. Þetta djöfulsins súkkulaði er auðvitað eins og heróín. Eða eitthvað álíka ávanabindandi. Get ég ímyndað mér.
Hræra vel og vandlega.
Inn í ísskáp í 30 mínútur.
Nammi. Nammi. Namm.
Algjört hnossgæti. Svo lykta puttarnir á manni eins og piparkaka í langan tíma á eftir. Sem er plús.
Heyrumst.
Ohhhhhhh þú og þínar popp hugmyndir og að sjálfsögðu ertu mætt með Piparköku nizzað ;) ;) En ég hlakka til að smakka þetta bráðlega ;)
ReplyDelete