Þetta er eitt gott trix. Þamba hálfa bjórdós og stinga henni svo á kaf í heilan kjúkling. Inn í ofn með hann og voilá - unaðslega mjúkur og góður kjúklingur. Bráðnar á tungunni. Sérstaklega ef það er piparostasósa með honum. Og vel kryddaðar sjoppufranskar.
Undirbúningur fyrir yfirvofandi innpökkun er hafin. Ég valsaði hérna um alla borg í dag og sankaði að mér góssi. Að vísu á ég tvo fulla kassa af borðum, böndum, blúndum, slaufum, dúskum - já nefndu það. Ef ekki þrjá. Já og sennilega fjórtán jólapappírsrúllur. En hver er að telja?
Ó, ég fann þessi pallíettubönd í Tiger í dag. Til í öllum mögulegum litum. Dásamlega fögur. Mig langaði að tæta af mér hverja einustu spjör og vefja þeim utan um mig. Gyðjan sem ég er.
Einhver 3ja metra pallíettuspotti dugir þó líklega skammt þegar bakhlutinn á mér er annars vegar. En ég fann nú ráð við því. Enda með ráð undir rifi hverju. Að minnsta kosti þegar kemur að því að sannfæra sjálfa mig um að ég þurfi á einhverju að halda. Mjög nauðsynlega.
Eins og þessum guðdómlega jólakjól. Ekkert nema háglansandi pallíettur. Ah, fegurðin. Nánast blindandi. Eins og sólarupprás að vori.
Ég átti hann inni. Ég keypti mér ekkert fyrir jólin í fyrra. Mig rekur að minnsta kosti ekki minni til þess. Mínar rauðvínsmaríneruðu heilasellur muna ekki svo langt.
Ég veit bara ekki hvernig ég á að útskýra þetta. Já, ég er orðin ein af þeim sem kaupir jólasveinahúfu á gæludýrið sitt. Gerði meira að segja stórtæka leit að einni slíkri. Fann þessa á endanum í Rúmfatalagernum. Þetta mál verður ekki rætt frekar. Aldrei.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment