Ég bar sigur úr býtum í bókabardaga Rásar 2 í desember. Það var svona líka sprúðlandi skemmtilegt. Ég hef nefnilega aldrei unnið neitt á ævinni. Svo ég muni. Eitt standandi bingó þegar ég var 10 ára. Fleiri sigra á ég ekki að baki.
Ég vann meðal annars teppi að eigin vali úr Geysi. Ég brunaði þangað samdægurs og arkaði út með þetta guðdómlega teppi í farteskinu. Gult, auðvitað. Unaðslega mjúkt og hlýtt. Svipað og hann Nói minn Síríus sem sést snöfla þarna á myndinni.
Veislumatur að hætti bróður míns. Soðnar kartöflur, sennilega kíló af lauk og nóg af pylsum. Steikt á pönnu. Ásamt vænu magni af íslensku smjöri. Snætt með tómatsósu. Mmm.
Nýja uppáhalds kryddið mitt. Gott með öllu. Svona næstum. Grænmeti og sætar kartöflur í eldfast mót, glás af olíu og þetta krydd. Algjört hnossgæti. Smjörsteiktir sveppir og þetta krydd. Enn meira hnossgæti.
Merkilegt hvernig þessir fimm hlutir mínir snúast ávallt um mat. Svona að mestu leyti. Jæja. Ég elska mat. Allt matarkyns. Það er ekkert leyndarmál.
Þetta er eitt besta dökka súkkulaði sem ég hef smakkað lengi. Og það ódýrasta. Sem skemmtir ekki fyrir. Kaffibolli með rjóma og tveir bitar. Eða hálf bara súkkulaðiplata. Himneskt. Gjörsamlega.
Ég er skilin. Skilin við lífsförunaut minn til margra ára. Skilnaðurinn átti sér stað á síðasta mánudag. Þá tók ég síðasta sopann. Úr síðustu flöskunni. Naut út í ystu æsar. Ropaði og sór þess eið að drekka aldrei gos aftur. Þessi skilnaður hefur tekið á. Það verður að segjast eins og er. Enda er ég vön að drekka tæplega tvo lítra af þessum lífselexír á dag. Jájá, ég veit - oj bara og allt það.
Uppfært: ég skrifaði þessa færslu í dag. Brotnaði og bugaðist í kringum klukkan 19:00. Drakk Pepsi. Er ennþá að drekka það. Hætt við að hætta.
Andskotinn.
Heyrumst.
No comments:
Post a Comment