Ég er veik fyrir gulu. Svo afar veik.
Í einhverri verslunarferðinni fyrir jólin hittumst við. Ég og þessi kjóll. Þessi ágæti kjóll. Kynnin áttu sér stað í Warehouse. Ég sá hann. Hann sá mig. Eftir drjúga stund af munúðlegum augngotum tók ég skrefið. Nálgaðist hann. Þefaði. Strauk. Mátaði.
Ég horfði á mig í speglinum. Yfir mig hrifin. En andskotinn nei. Ég var ekki að fara með honum heim. Ekki að ræða það. Ég sleit mig lausa, þakkaði stutt kynni og arkaði út úr búðinni. Segjandi sjálfri mér að sjálfsagi væri dyggð. Og þegar ég yrði rík mætti ég kaupa mér alla kjóla í heiminum. Alla!
Ég ráfaði um Kringluna. Huggaði mig með frönskum á Austurlandahraðlestinni. Sem eru bestu franskar í heimi nota bene.
Löng saga stutt: í djúpsteikingarmóðu arkaði ég aftur í Warehouse. Keypti kjólinn. Tuðaði eitthvað við sjálfa mig um að ég yrði aldrei rík ef ég ætti ekki falleg föt. Útrætt mál.
Ljómandi myndatökuveður. Eða ekki. Ausandi rigning og hífandi rok.
Á flótta undan veðrinu. Af myndinni að dæma hef ég ákaflega kvenlegan og penan hlaupastíl.
Hvað er kjóll án fylgihluta? Ekki neitt. Bara ekki neitt.
Daginn eftir djúpsteikingarvímuna var ég að væflast í Level í Mosfellsbæ. Rak augun í þetta hálsmen frá Tribo. Löng saga stutt: það passaði bara svo vel við kjólinn. Ég er líka veik fyrir öllu sem á rætur sínar að rekja til Seyðisfjarðar. Eins og ég. Útrætt mál.
Frekari kjólakaup eru ekki á áætlun á árinu. Eða tæknilega séð var þessi keyptur á síðasta ári. Þannig að ég á kannski einn inni. Eða tvo.
Heyrumst.
Mjög fallegt! Elska gula kjóla, þeir passa líka svo vel við rauðvínsglas.
ReplyDeleteÓ, þú smekkkona!
Delete