Jan 9, 2015

Peacock.


Mér finnst gaman að mála mig. Í öllum regnbogans litum. Auðvitað. 

Fyrir jólin dró fyrrum samstarfskona mín og núverandi stórvinkona, hún Tara nokkur Brekkan, mig inn í No Name í Kópavogi. Ég man eftir að hafa notað snyrtivörur frá því ágæta merki í menntaskóla. Fyrir óþarflega mörgum árum. Svo bara hvarf það. Eða ég hætti að kaupa það. Veit ekki. Leiðir okkar skildu að minnsta kosti. 



Út úr búðinni gekk ég meðal annars með þessa stórfenglegu palletu. Og núna ætla ég að segja bannorðið. Ég fékk hana gefins. Ó, boj. Ég sagði það. 

Stöldrum aðeins við hérna. Svona lítillega. Vindum okkur úr augnmálningu yfir í auglýsingar. Blogg eru sístækkandi auglýsingamiðill. Einfalt mál. Vel skiljanlegt að fyrirtæki séu tilbúin að láta vörur sínar í skiptum fyrir umfjöllun. Umfjöllun sem nær í mörgum tilvikum til fjölda manns.

Trúverðugleikinn liggur hins vegar hjá bloggaranum. Svona að mínu mati. Nú hef ég ekki hugmynd um hvort þið takið mig trúanlega þegar ég er að tuða um einhvern varning hérna. Sem ég hef að vísu þegið afskaplega lítið af í gegnum tíðina. Ég hef stundað þessa tegund viðskipta við örfá fyrirtæki. Allt fyrirtæki sem ég versla almennt við og þekki vörurnar frá. Og er þess vegna yfirleitt ekki að tala út um rassgatið á mér. Að ég held. 

Það hafa ýmis tilboð dúkkað upp hjá mér. Sem oft á tíðum hefur verið freistandi að þiggja. Ég hugsa að ég neiti samt í svona 95% tilvika. Nei, ókei, 90%. Um daginn var ég einmitt beðin um að mæla með einhverskonar boozti og heilsudrykkjum. Persónulega var ég alveg til í að þiggja fullan kassa af fríum morgunverð. En að blogga um boozt? Mæla með heilsudrykkjum? Sennilega svipað og að Þorgrímur Þráinsson myndi reyna að selja ykkur sígarettur. Eða Þórarinn Tyrfingsson stæði vaktina við bjórdæluna á Ölstofunni. 

Þannig að svarið var nei. 

Æh, þetta er vandmeðfarið. Hver og einn verður að fylgja sinni sannfæringu. Já. Amen, hallelúja og allt það. 

Og aftur að augnmálningunni.


Ó, litadýrðin. Gulur, rauður, grænn og blár - ég elska þá alla. Að sjálfsögðu tókst mér að rústa einum augnskugga áður en ég náði svo mikið sem að taka pallettuna úr plastinu. 

Ég er dálítill páfugl í mér. Alltof litskrúðug og óþarflega fyrirferðarmikil. Fyrir þessa förðun fékk ég innblástur frá þeirri ágætu fuglategund, Lindu Hallberg vinkonu minni og þessu myndbandi. 






Já, þetta voru fimm myndir af andlitinu á mér. Í röð. Verði ykkur að góðu. 

Og áður en ég verð afhausuð þá eru myndirnar ekki fótósjoppaðar. Í þeim skilningi. Lék mér örlítið með lýsingu og filtera hérna. Eins og ég geri við allar mínar myndir. 

Kjarni málsins: virkilega eiguleg palletta fyrir þá sem hafa gaman að því að leika sér með liti. Já og alla aðra líka. Hún er stútfull af passlega eðlilegum augnskuggum inni á milli. Litirnir þekja vel og haldast merkilega lengi á augnlokinu. 

Jæja, ég er að fara að prófa safapressuna mína. Já, ég ætla að hella rauðvíni í hana. Ásamt fleiru. 

Heyrumst.

2 comments:

  1. Ég kann að meta. Þessi palletta er gimsteinn og peacock lúkkið klikkar ekki!

    ReplyDelete
  2. Safapressa?

    Ég fékk blandara í jólagjöf og væri einmitt alveg til í hellings af rauðvínsblöndungsuppskriftum, skella rauðvíni í klakabox og þegar það segir klaki í þessum drykkjum sem krefjast blandara að skella nokkrum rauðvínsmolum?

    En að mixa beikoni, já eða hræra betty crocker í þessu?

    Ég bíð spennt eftir hugmyndum svo minn verði notaður :)

    ReplyDelete