Mar 10, 2015

Halló

Ehm, já. Hæ. Þetta er vandræðalegt. Svona eins og að hitta gamla hjásvæfu í Bónus. Sem er með ófríska kærustu sína upp á arminn. Einhvern sem maður stundaði jafnvel flengingar og læknisleiki með. Og kýs aldrei að sjá aftur. Djók.

Þrjár vikur og ekki stakt orð. Jú, það er vandræðalegt að hefja upp raust sína á nýjan leik eftir slíkt hlé. En ég læt mig hafa það. Svona eins og maður myndi klára Bónusferðina. Þó gamla hjásvæfan væri að þukla lárperur í grænmetisdeildinni. Eða eitthvað.

Hvað hef ég verið að bauka? Ekkert óvenjulegt. Eða merkilegt - því miður. Aðallega hef ég verið að reyna að finna jafnvægi í lífinu. Hljómar ákaflega djúpt en er það ekki. Að fara úr námi og yfir á vinnumarkaðinn hefur kostað mig gífurlega aðlögun. Í fimm ár svaf ég þegar ég vildi sofa. Var vakandi þegar ég kærði mig um að vaka. Verslaði á morgnana. Þvoði þvott á nóttunni. Bakaði á miðnætti. Var ómáluð í marga daga. Jafnvel ósturtuð í fleiri en einn. Ókei, tvo. Þið skiljið sneiðina. 

Að eiga svo að vakna klukkan sjö. Setja upp mannsæmandi andlit. Vinna. Koma heim um fjögur. Versla, þvo þvott, þrífa, ala upp afkvæmi og elska - allt á milli klukkan fimm og ellefu. Það er skrýtið. Og hefur krafist aðlögunar. Veruleiki sem flestir búa við, ég átta mig alveg á því. Og margir sem eiga talsvert stærra heimili en ég.

Ég er ekki að kvarta. Alls ekki. Það hefur bara ýmislegt fengið að sitja á hakanum á meðan ég leitaði jafnvægis. Og lærði að lifa eftir nýrri klukku. 

Hvað er fleira í fréttum?



Ég útskrifaðist. Eins og glöggir Facebook-fylgjendur bloggsins komu líklega auga á. Það var mikill gleðidagur í faðmi fjölskyldunnar.



Sópaði að mér stórfenglegum gjöfum að því tilefni. Enda ætti maður aldrei að leggja neitt á sig án þess að því fylgi einhverskonar gjafasturta. Ekki nokkurn skapaðan hlut bara. 

Árið sem ég fermdist lét ég það einmitt gossa yfir fullan sal af fólki að ég væri bara að þessu fermingarstússi fyrir gjafirnar. Sóknarpresturinn var nota bene í salnum. Hann horfir ennþá kuldalega í áttina að mér. 16 árum síðar. Ég var samt ekki að meina þetta. Held ég. Bara að reyna að vera fyndin. Og vekja á mér athygli. Þá sjaldan. 


Fáein rauðvínsglös hafa fallið í valinn á meðan þessu hléi stóð. Eða flöskur. Whatever.


Kollvikin fara hækkandi. Og filterum á hverja sjálfu fjölgandi. 

Var mín saknað? Sárt? 

Segið já.

Ég held að jafnvægi sé loks náð. Gefið mér einn sjéns enn. 

Heyrumst.


8 comments:

  1. Hæ. Ég missti alveg af þáttunum þínum "Nenni ekki að elda". Ég gat aldrei horft á þá á heimasíðu sjónvarpstöðvarinnar (sem ég man ekki hvað hét).

    Er hægt að horfa á þetta einhversstaðar?

    ReplyDelete
  2. Já, við söknuðum þín mikið ! Lífið varð einhvern vegin svo innantómt þessar þrjár vikur....hohoho ;)

    ReplyDelete
  3. já sárt saknað í hversdagsrúntinum um netheima að sjá ekki 1 gveigu blogg ;)

    ReplyDelete
  4. saknaði þín mjög!

    ReplyDelete
  5. já!!!!!
    En hún.is bloggið þitt hélt mér gangandi :)

    ReplyDelete
  6. Saknaði? já mjög! Takk fyrir að koma aftur! ahh þú ert svo skemmtileg og frábært blogg!

    ReplyDelete
  7. Saknaði þín óskaplega mikið!!!
    Gott að fá þig aftur :)

    Þín
    Sigga Rósa

    ReplyDelete
  8. Þín var sárt saknað ! :)
    Kv, Heba

    ReplyDelete