May 1, 2015

Niður á jörðina


Það er dálítið erfitt að detta aftur hingað inn og ætla að fara að tala um kjóla, kökur, kokteila eða naglalökk. Það er allt í einu orðið svo lítilmótlegt. Eitthvað sem engu máli skiptir.

Viðbrögð ykkar við skrifum mínum á miðvikudaginn breyttu einfaldlega öllu. Breyttu lífi mínu. Svona satt best að segja. Já, ég er rosalega dramatísk. Mér er alveg sama. Ég frelsaðist. Frelsaðist undan eigin ranghugmyndum. Þar áttuð þið stóran þátt.

Sjá allar þessar deilingar. Ykkar sögur. Fallegu orðin. Like-in. 

Takk!

Aðfaranótt miðvikudagsins var ég vakandi til klukkan að ganga fimm. Ég var búin að skrifa færsluna fimmtán sinnum. Setja myndirnar af mér inn. Taka þær út. Lesa yfir. Stroka út. Hætta við. Byrja aftur. Ég drakk sjö lítra af kaffi á meðan. Svona sirka. Og sagði öllum loforðum um eilífa hollustu að fokka sér. Að vísu kom ég bara niður einu Oreokexi þessa nótt. Enda við það að fá taugaáfall. 

Ég gafst svo upp. Þreytan yfirbugaði mig. Ég tímasetti færsluna kl. 10 morguninn eftir og ég man að ég hugsaði áður en ég skreið undir sæng ,,andskotinn hafi það, ef þetta fer fyrir brjóstið á einhverjum þá skrifa ég aldrei inn á þetta guðsvolaða blogg aftur". 

Klukkan 09:57 sat ég í vinnunni. Horfði á klukkuna. Var við það að gubba yfir lyklaborðið mitt. Gera í buxurnar. 10:07 voru komnar yfir 50 deilingar. Ótal skilaboð biðu mín. Síminn hringdi og hringdi. 

Þá vissi ég. Vissi að ég hafði gert eitthvað rétt. Það var góð tilfinning. Ég er rétt að stíga niður á jörðina núna. Í kjól. Auðvitað.

Æ, tölum aðeins um kjóla. Þeir skipta víst máli. 



Það var svo mikið sumar í dag. Kalt en sumarlegt. Ég sprangaði um miðbæinn óvenju létt á fæti. Með Bubba í eyrunum. Að kafna úr vellíðan. 

Almáttugur, það er bara svo þungu fargi af mér létt. 


Ég splæsti í þennan fína kjól í Gyllta kettinum um daginn. Eins og ég hef áður sagt frá. 


Ég má til með að sýna ykkur ljósmyndara dagsins. Sjálfsbjargarviðleitin sko. Afkvæmið stakk af til ömmu sinnar og sambýlismaðurinn er á hafinu.

Já, ég dansaði og hringsnerist hérna. Flögraði um i fína kjólnum mínum. Eins og fín kona. Fyrir framan stofuborð. Koll. Súpupott. Ævafornt skartgripaskrín. Og myndavélina. 

Takk. Enn og aftur. Þið eruð ómetanleg. Öll með tölu.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Þú ert yndisleg eins og þù ert Guđrún mín ;) ♡ ♡ 💕

    ReplyDelete