Jun 7, 2015

Manían


Ég er búin að finna mína leikfimi. Að lita. Lita, lita og lita. Það róar mig. Veitir mér vellíðan. Ég fæ harðsperrur (í einn vöðva, whatever). Ég fyllist orku. Og bjartsýni. Já, þetta er bara alveg eins og hefðbundin líkamsrækt. Mínus kílóamissir að vísu. Sennilega af því að ég er síétandi á meðan líkamsrækt stendur. Tínandi sælgætið af gamalli afmælisköku. Borandi putta í kremið. Sleikjandi puttann. Mmm. 


Ég sagði ykkur frá því um daginn að ég hefði keypt mér eina litabók í Tiger. Og fáeina lélega tússliti. Ekki svo löngu síðar er ég síverslandi tússliti. Litabækurnar eru orðnar fjórar. Og þrjár á leiðinni utan úr heimi. Já, ég pantaði litabækur fyrir fullorðna á Amazon. Ég gerði það já.

Litabækur fyrir fullorðna. Nei, það er ekki eins og það hljómar. Ég stend við póstlúguna eins og geltandi rakki hvert einasta síðdegi. Blikka manninn sem ber út póstinn blíðlega. Smelli upp sparibrosinu. ,,Heyrðu, hæ - hæ! Er póstkrafa? Ég heiti Guðrún Veiga. G U Ð R Ú N V E I G A."

Bækurnar eru ekki ennþá komnar. Og póstberinn farinn að leggja sig fram við að koma þegar ég er í vinnunni. 



Sambýlismaðurinn datt inn um dyrnar á fimmtudag. Eftir 42 daga fjarveru. Vonandi innilega að ég myndi tæta af mér hverja einustu spjör og hoppa í fangið á honum. En ég var að lita. ,,Já hæ ástin mín. Já, bíddu aðeins. Ég ætla að klára þessa mynd hérna. Ha? Neeeei, þetta eru ekki nýir skór í forstofunni. Hvaða leðurjakki? Neineinei, þetta er eldgamalt."

Ég hefði átt að hypja mig úr andskotans fötunum um leið og hann gekk inn. 

Eigið notalegan sunnudag mín kæru.

Heyrumst.


1 comment:

  1. Guðrún Veiga - vissir þú að ég hef gefið út tvær litabækur, sérstaklega fyrir fullorðna og til styrktar Stígamótum? Þær fást í Gullabúinu á Seyðisfirði. Verður að tjékka á þeim næst þegar þú rennur í fjörðinn fagra.

    Fullt af mjöööög flottum myndum eftir bæði íslenska og erlenda listamenn allstaðar að úr heiminum!

    Fer mögulega að henda mér í útgáfu á Litabók númer 3 - kannski ég ætti bara að fá þig með mér í það verkefni ;)

    ReplyDelete