Dec 24, 2013

Jólin, jólin allsstaðar.


Sjón sem ég hef líklega séð allar mínar þorláksmessur. Pabbi standandi yfir skötupottunum. 



Jólin mín koma ekki fyrr en ég anda að mér þrúgandi skötulykt í foreldrahúsum á þorláksmessu. Ég borða ekki skötu, nei. Hef ekki einu sinni smakkað. En lyktin - ó, jólalyktin mín. 



Mín þorláksmessuhefð er ein með öllu. Eða samt eiginlega tvær. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að ljúga í ykkur að ég verða södd af einni pylsu. Mér, systur minni og afkvæmi er skafað út í horn af skötuaðdáendum og þar eru snæddar pylsur með bestu lyst.




Hver einustu jól þá ætla ég að smakka. 28 þorláksmessur að baki og ég hef ekki ennþá lagt mér skötu til munns. Ég bara get það ekki. 

Samt er enginn vafi á því að ég kem til með að sjóða skötu sjálf ef ég hætti einhvern tímann að fara heim um jólin. Ég sýð hana bara og hendi henni svo. Baða mig upp úr lyktinni og leyfi jólunum að koma. 




Klukkan er hálf fimm á aðfangadag og ég sit hérna á götóttum buxum, í einum sokk og ennþá að bardúsa við gjafainnpökkun. Nei, jólastress er líklega eitthvað sem ég þjáist ekki af.


Ég sendi síðast jólakort árið 2009. Þau eru enn í gildi. Þið sem fenguð ekki kort frá mér það ágæta ár fáið hér með hugheilar jólakveðjur frá mér og afkvæminu. 

Njótið tímans framundan. Það ætlum við svo sannarlega að gera. 

Við munum byrja að njóta þegar ég hleypi afkvæminu út úr herberginu sínu aftur. Ég læsti hann nefnilega inni fyrr í dag eftir að hann grátbað um að ,,opna bara eiiiinn pakka" í um það bil sjöhundruðasta skiptið síðan við vöknuðum. Ég hleypi honum sennilega út fyrir mat. Engar áhyggjur.

Heyrumst.

1 comment:

  1. Ég sýð hana bara og hendi henni svo... lol !!
    Ofsalega skemmtilegt blogg hjá þér Guðrún Veiga, mér var nýlega bent á það og á ég því mörg blogg inni sem ég hlakka til að lesa. -Gleðilega hátíð!

    ReplyDelete